Gengi hlutabréfa hefur almennt hækkað á mörkuðum á meginlandi Evrópu í dag eftir birtingu heldur jákvæðra talna sem benda til að framleiðsla hafi aukist í Þýskalandi í mars. Breska ríkisútvarpið ( BBC ) segir tölurnar blása glæðum í þær vonir að staða þýska hagkerfisins sé sterkari en áður hafi verið óttast.

Framleiðsla jókst um 1,2% á milli mánaða í mars og var það heldur meira en búist var við. BBC hefur eftir Carsten Brzeski, aðalhagfræðingi hjá ING, að horfurnar í Þýskalandi hafi batnað þrátt fyrir fjölmargar vísbendingar um samdrátt í efnahagslífinu.