*

miðvikudagur, 14. apríl 2021
Innlent 8. júlí 2018 14:05

Staða unga fólksins áfram erfið

„Ungt fólk á erfitt með að komast inn á markað, nema með einhverri aðstoð í sambandi við eigið fé."

Sveinn Ólafur Melsted
Ari Skúlason, sérfræðingur hjá hagfræðideild Landsbankans.
Haraldur Guðjónsson

Ari Skúlason, sérfræðingur hjá hagfræðideild Landsbankans, segir að fyrri hluti ársins í fyrra hafi verið svolítið galinn og í raun einstakur. „Við höfum ekki séð svona miklar hækkanir í langan tíma, nema kannski rétt fyrir hrun. Það virðist hafa verið mikið stress í fólki á þessum tíma, eins og fólk væri í kappi við að kaupa sér íbúð áður en verðið hækkaði ennþá meira. En svo er eins og tappinn hafi dottið úr og kaupendahópurinn hefur áttað sig á því að hann hafi verið að hlaupa alltof hratt og fór frekar að bíða.“

„Ég tel að það gæti orðið stöðugleiki í fasteignaverði á höfuðborgarsvæðinu eitthvað áfram. Það sem er í spilunum er að það er aukið framboð á nýju húsnæði. Það húsnæði hefur til þessa verið dýrara á hvern fermetra heldur en eldra húsnæði og það ætti því að ýfa verðið upp. Samt sem áður hefur það ekki ýft verðið mikið upp. Verð sem verið er að setja á nýtt húsnæði er nokkuð hátt og því getur verið erfitt fyrir fólk, þá sérstaklega ungt fólk, að ráða við slíkt verð. Þar að auki eru þær íbúðir sem verið er að byggja yfirleitt of stórar fyrir þann kaupendahóp. Staðan gæti orðið sú að það verði erfitt að losna við það sem verið er að byggja í augnablikinu, enda sýna tölur að það er ekkert að seljast sérstaklega mikið af nýju húsnæði. Svo er spurning hvað gerist þegar þeir sem eru að byggja átta sig á því að þeir eru ekki að selja nógu mikið. Munu þeir bíða og hanga á húsnæðinu eða munum við sjá einhverjar lækkanir á verði á nýju húsnæði? Ef það yrðu lækkanir myndi það þýða ennþá meiri stöðugleika á markaðnum eða jafnvel lækkanir á verði? En þetta er þó allt saman háð mikilli óvissu. Það gæti vel gerst að kapphlaupið hefjist aftur,“ segir Ari.

Ari telur að staða ungs fólks á fasteignamarkaði muni áfram vera erfið. „Ungt fólk á erfitt með að komast inn á markað, nema með einhverri aðstoð í sambandi við eigið fé. Ungt fólk sem á ekki möguleika á einhvers konar aðstoð, til dæmis frá foreldrum, það eru eiginlega engir möguleikar til fyrir það nema leigumarkaðurinn og hann er mjög erfiður. Það hefur ekki komið fram aukið framboð á minni og ódýrari íbúðum til að koma til móts við þarfir ungs fólks,“ segir Ari.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð