Sá hópur sem verst er staddur fjárhagslega hér á landi, þ.e. glímir við vanskil, er nokkuð stærri hér á landi en í öðrum Evrópuríkjum. Það hefur lítið breyst á milli ára. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í Hagsjá , riti hagfræðideildar Landsbankans um gögn sem Hagstofan birti á dögunum um fjárhagsstöðu heimilanna. Þessi rannsókn er hluti af samræmdri lífskjararannsókn hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat (EU Statistics on Income and Living Conditions).

Hagfræðideildin rifjar upp að 10% einstaklinga hér á landi búa á heimili sem hefur lent í vanskilum á húsnæðislánum eða leigu.

„Þetta hlutfall sker sig nokkuð úr, og er það næst hæsta í Evrópu á eftir Grikklandi. Þessi tvö lönd skera sig nokkuð frá öðrum löndum að þessu leyti. Hátt hlutfall gæti að einhverju leyti endurspeglað hversu hátt hlutfall fólks býr í eigin húsnæði hér á landi. Hins vegar sker hlutfall þeirra sem telja sig ekki geta mætt óvæntum útgjöldum og hlutfall þeirra sem eiga erfitt með að ná endum saman á Íslandi ekki frá öðrum ríkjum Evrópu. Hlutfallið hér á landi er fyrir miðjum lista Evrópuríkja, á svipuðum stað og lönd eins og Spánn, Ítalía og Bretland. Það má þó greina ákveðið landfræðilegt mynstur í gögnunum. Þannig er staðan er almennt séð verri í Austur-Evrópu, hvort sem það eru fyrrum Austantjaldslönd eða ekki, en í Vestur-Evrópu,“ segir í Hagsjánni.