Á næstu tveim mánuðum er von á þúsundum erlendra gesta á ýmsar samkomur hér á landi.  Skipuleggjendur viðburða fylgjast grannt með þróun og dreifingu kórónuveirunnar, COVID-19.

Tölvuleikjafyrirtækið CCP greindi frá því á föstudag að ákveðið hefði verið að aflýsa EVE fanfest hátíðinni sem fara átti fram 2.-4. apríl næstkomandi vegna veirunnar. Gert var ráð fyrir um þúsund gestum á hátíðina. Frá því á mánudag hefur svo fleiri stórum viðburðum verið frestað eða aflýst, til að mynda var stórsýningu byggingariðnaðarins, Verk og vit, frestað fram á haustið. Landsvirkjun og Samorka hafa bæði frestað ársfundum sínum auk árshátíða stórra vinnustaða á borð við Össur og Íslandspóst. Þá hefur Reykjavíkurskákmótinu sem átti að fara fram um miðjan apríl einnig verið aflýst.

Þrátt fyrir að frestanir viðburða innanlands feli í sér óþægindi er þó ljóst að efnahagsleg áhrif af því að fleiri stórviðburðum sem laða að sér erlenda gesti verði aflýst eru umtalsverð, þá sérstaklega fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu. Talið er að tekjur af hverjum ráðstefnugesti séu allt að tvöfalt hærri á hverja gistinótt en af meðalferðamanni og að þúsund manna ráðstefna, líkt og EVE fanfest, skilji eftir sig um 400 milljónir króna í gjaldeyristekjur.

Undanfarin ár hefur hróður Íslands við að halda viðburði og ráðstefnur aukist en áætlanir ársins gerðu ráð fyrir tæplega fimmtungs vexti í komum hingað til lands þeim tengdum. Meðal viðburða á næstu vikum og mánuðum, þar sem erlendra gesta er að vænta, má nefna Reykjavíkurskákmótið sem fram fer um miðjan næsta mánuð. Um og yfir 200 erlendir gestir sækja mótið en það spannar tíu daga. Norðan heiða er von á um 500 gestum í lok mánaðar og í apríl á ráðstefnur á Akureyri.

Á döfinni í apríl má meðal annars nefna ráðstefnu, sem ríkisstjórn Íslands stendur fyrir, og fjallar um plast í sjó á norðurheimskautssvæðinu. Fjölmennasta ráðstefna ársins, The World Geothermal Congress, er síðan á dagskrá á síðustu dögum aprílmánaðar en von er á um 3 þúsund gestum þangað. Talningin er vitaskuld ekki tæmandi.

Viðskiptablaðið heyrði í nokkrum aðilum sem komið hafa að skipulagningu stórra viðburða sem eru á áætlun í þessum og næsta mánuði. Talsverður samhljómur var í svörum þeirra, menn halda sínu striki miðað við óbreytt ástand en undirbúa viðbrögð ef staðan breytist. Viðbragðsstig almannavarna eru þrjú, það er óvissustig, hættustig og neyðarstig. Sem stendur er hættustig í gildi en verði breyting þar til hækkunar er viðbúið að framhaldið verði skoðað.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .