Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga segir stöðu sveitarfélaga landsins mjög misjafna en Hafnarfjörður, Reykjanesbær og Álftanes hafa öll lent í vandræðum. Sveitarfélög sem ekki fjárfestu of mikið standa betur. Þrír kostir eru í stöðunni fyrir þau sveitarfélög sem illa eru stödd.

„Nokkur sveitarfélög eru í þröngri stöðu en hafa náð að halda undirtökunum á fjármálunum,“ segir Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, aðspurður um fjárhagsstöðu sveitarfélaga en eins og fram kom í Viðskiptablaðinu fyrir viku er 4,2 milljarða króna lán Depfa bank til Hafnarfjarðarbæjar gjaldfallið.

Forsíða 5. maí 2011
Forsíða 5. maí 2011
© vb.is (vb.is)
Þá hefur Reykjanesbær barist við mikinn fjárhagsvanda að undanförnu sem og Álftanes sem í kjölfarið var svipt fjárforræði. Halldór segir Álftanes hafa verið einstætt þar sem tökin á rekstrinum voru veik og sveitarstjórn missti tökin á fjármálum sínum þannig að sveitarfélagið var ekki rekstrarhæft. Það var bæði vegna mikillar skuldastöðu og slaks rekstrar.

„Reykjanesbær og Hafnarfjörður eiga í erfiðleikum m.a. vegna hárra afborgana af erlendum lánum þar sem endurfjármögnun er erfið. Það er einsdæmi í tilfelli Reykjanesbæjar að þar hverfur risastór vinnustaður af vettvangi með einu pennastriki og mikið hefur verið lagt í sölurnar til að ná hjólum atvinnulífsins af stað aftur,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð.