Matsfyrirtækin Fitch Ratings og S&P Global staðfestu í gær lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs fyrir skuldir í innlendri og erlendri mynt með stöðugum horfum. Stöðugar horfur endurspegla svipaðar líkur á hækkun og lækkun lánshæfiseinkunnarinnar.

Fitch staðfesti A einkunn ríkissjóðs fyrir langtímaskuldir í erlendri mynt. Samkvæmt matsfyrirtækinu endurspeglar þessi einkunn á annan bóginn háar þjóðartekjur, sterkar stofnanir, góð lífskjör og gott viðskiptaumhverfi og á hinn bóginn að hagkerfið reiðir sig að stórum hluta á hrávörur í útflutningi og er næmt fyrir ytri áföllum auk fyrri reynslu af sveiflum í efnahags- og fjármálum.

Samkvæmt Fitch gætu áframhaldandi lækkun skulda hins opinbera og ábyrg stefna í ríkisfjármálum, auk áframhaldandi bati í ytri stöðu þjóðarbúsins og getu þess til að mæta ytri áföllum, leitt hvor um sig til hækkunar á lánshæfiseinkunn ríkissjóðs. Á hinn bóginn eru vísbendingar um ofhitnun hagkerfisins í formi víxlverkunar verðlags og launa, verðbólguskots og tilheyrandi afleiðinga fyrir efnahagsreikninga heimila og fyrirtækja. Eins er hætta á miklu fjármagnsútflæði, sem leiðir til ytra ójafnvægis og þrýstings á gengi krónunnar. Það gæti orðið til lækkunar á einkunninni.

S&P Global staðfesti A/A-1 einkunnir ríkissjóðs fyrir langtíma- og skammtímaskuldir í innlendum og erlendum gjaldmiðlum. Að sögn matsfyrirtækisins endurspeglar þessi einkunn sterkt stofnanaumhverfi og árangursríka stefnumótun, tiltölulega lága hreina skuldastöðu hins opinbera (30% af VLF) og háar þjóðartekjur á mann. Matsfyrirtækið telur næmi hagkerfisins fyrir þróun í ytra umhverfi og sveiflukennt efnahagslíf hafa hamlandi áhrif á lánshæfiseinkunnir auk hættunnar á ofhitnun hagkerfisins.

Stöðugar horfur endurspegla það mat S&P að á móti hættunni á ofhitnun hagkerfisins vegi möguleikinn á hraðari bata efnahagsreikninga hins opinbera og þjóðarbúsins á komandi árum.