Stjórn Uber staðfesti í gærkvöldi að Dara Khosrowshahi hafi verið ráðinn forstjóri fyrirtækisins. Á mánudag bárust fréttir af því að stjórn fyrirtækisins hafði valið Khosrowshahi. Það fékkst svo staðfest í minnisblaði sem sent var á starfsmenn að því er segir í frétt Reuters .

Eins og fjallað hefur verið um þá hefur Khosrowshahi starfað síðustu 12 ár sem forstjóri bókunarsíðunnar Expedia. Á þeim tíma hefur Expeida orðið ein stærsta bókunarsíða heims og hefur hlutabréfaverð fyrirtækisins ríflega sexfaldast í stjórnartíð Khosrowshahi. Hann  fæddist í Íran árið 1969 en þegar hann var 9 ára gamall flúði fjölskylda hans til Bandaríkjanna í kjölfar byltingarinnar í landinu árið 1978. Honum er lýst sem vinalegum en ákveðnum stjórnenda sem hafi gott lag á að greiða úr óreiðu.

Í tölvupóst frá einum af stjórnarmanni Uber til starfsmanna kemur fram að stjórn og framkvæmdastjórn fyrirtækisins telur Khosrowshahi rétta manninn til að leiða Uber inn í framtíðina.

Khosrowshahi sendi einnig tölvupóst á starfsmenn Expedia þar sem greindi frá því að með blendnum tilfinningum hafi hann samþykkt tilboð Uber. „Þetta er ein erfiðasta ákvörðun lífs míns. Ég viðurkenni að ég er örlítið óttasleginn. Ég hef verið hjá Expedia það lengi að ég að gleymt hvernig lífið er fyrir utan vinnustaðinn".