Basno.com gerir fólki kleift að deila með heiminum afrekum sínum og reynslu, áhugamálum eða upplýsingum um félagasamtök sem það á aðild að. „Vefkerfið okkar gerir öðrum jafnframt kleift að sannreyna þær fullyrðingar sem fólk setur fram um sjálft sig,“ segir Kjartan Örn Ólafsson, einn þriggja stofnenda bandaríska fyrirtækisins Basno. „Við leituðum skipulega uppi vandamál sem þegar hafa verið leyst í raunheimum en voru enn óleyst í netheimum. Næst fórum við gagnrýnið yfir það hvernig leysa mætti þessi vandamál og grandskoðuðum hvers konar viðskiptatækifæri gætu falist í hverri lausn fyrir sig. Við völdum loks eitt verkefni og einhentum okkur í það. Úr varð Basno.com,“ útskýrir Kjartan.

Kjartan stofnaði fyrirtækið fyrir tæpum þremur árum ásamt dönskum félaga sínum að nafni Henrik Werdenlin og Bandaríkjamanninum Nicholas Thorne. Werdenlin starfaði áður hjá MTV-sjónvarpsstöðinni og Thorne vann hjá fjárfestingarbankanum Goldman Sachs í New York. Í dag eru starfsmenn Basno orðnir tólf talsins. Flestir eru í New York borg en einn er í London, annar í Búdapest og í Reykjavík er Kjartan staðsettur ásamt helsta hönnuði Basno. Kjartan flutti heim til Íslands fyrir tæpum tveimur árum ásamt fjölskyldu sinni, eftir nærri tíu ára dvöl í Bandaríkjunum.

Til þess að skýra hugmyndina að baki Basno.com gerir Kjartan greinarmun á raunheimum annars vegar og netheimum hins vegar. „Gleymum því ekki að í dag lifir fólk í þessum tveimur heimum, og báðir eru á sinn hátt raunverulegir. Í raunheimum eru til ýmiss konar tæki og tól til þess að votta árangur, verðlauna afrek eða sannreyna fyrir hvað fólk stendur. Fólk fær afhent prófskírteini þegar það útskrifast úr skóla, medalíu um hálsinn þegar það klárar maraþonhlaup, skjal sem staðfestir að það megi starfa sem lögmaður og meðlimakort ef það tilheyrir klúbbi eða félagasamtökum. Auðvitað getur fólk lýst því í texta á Facebook eða LinkedIn hvað það fæst við en það er engin auðveld leið til að sannreyna slíkar fullyrðingar í netheimum,“ segir Kjartan.

Basno er svarið við þessu vandamáli. Hvað nafnið sjálft varðar segir Kjartan það tengjast orðunum „badge“ og „number“. Hið fyrrnefnda vísar til vörunnar sjálfrar,sem er merki eða tákn. Hið síðarnefnda vísar til þess að á bak við sérhvert merki er kóði, geymdur í gagnagrunni Basno, sem vottar uppruna merkisins og kemur í veg fyrir fölsun eða misnotkun. Að auki þótti fimm stafa nafnið hentugt, þar sem ekki er auðfundið svo stutt og þjált lén með endingunni .com.

Rekstur Basno hefur farið vel af stað. Útlit er fyrir að tekjur ársins verði yfir milljón dollarar, jafnvirði um 120 milljóna króna. Kjartan tekur fram að í sjálfu sér sé fjárhæðin ekki há. „En tekjurnar margfölduðust frá árinu áður og ef áætlanir ganga eftir þá munum við margfaldast árlega á næstu árum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .