Samþykkt var á hluthafafundi Arion banka í morgun að heimila arðgreiðslur að upphæð allt að 25 milljarða króna takist bankanum að selja að minnsta kosti 2% hlut til nýrra hluthafa fyrir miðjan apríl.

Þá var einnig samþykkt tillaga um að bankinn geti keypt allt að 10% af eigin bréfum í bankanum fyrir allt að 18,8 milljarða króna. Sú upphæð yrði þó dregin af væntanlegri arðgreiðslu.

Eignarhaldsfélagið Kaupskil, í eigu þrotabús Kaupþings, hefur verið í viðræðum við á annan tug lífeyrissjóða um kaup á samanlagt 10% hlut í Arion banka. Hins vegar virðist sem stærstu sjóðir landsins vilji flýta sér hægt en greint var frá því í Morgunblaðinu að fjórir stærstu lífeyrissjóðir landsins hyggðust ekki fjárfesta í bankanum að sinni.

Ef af arðgreiðslunni yrði, gætu kaupendur bréfa í bankanum fengið nokkurn hluta kaupverðsins strax til baka. Þannig gætu kaupendur 2% hlutar fengið allt að 500 milljónir strax til baka í formi arðs.

Skyldar fréttir um málefni Arion banka: