Landsréttur staðfesti í gær úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að krafa Umhverfisstofnunar (UST) í þrotabú Wow air vegna sölu losunarheimilda væri ekki sértökukrafa.

Krafa málsins var tilkomin vegna sölu Wow á losunarheimildum áður en félagið fór í þrot. Evrópskum flugfélögum er ár hvert úthlutað slíkum heimildum, að hluta til endurgjaldslaust en að hluta á uppboði. Tveimur mánuðum fyrir þrot Wow fékk félagið 152 þúsund slíkar heimildir frá UST en þær voru að stærstum hluta seldar frá félaginu áður en það fór í þrot.

Alls stóðu 516 slíkar heimildir eftir sem skiptastjórar seldu skömmu eftir að félagið var tekið til skipta. UST lýsti 846 milljón króna kröfu í búið vegna sölu á losunarheimildum en stærstum hluta þess var komið fyrir meðal almennra krafna. Þá hefur UST lagt 3,8 milljarða króna sekt á þrotabúið sem einnig endar sem almenn krafa. Deilt var hins vegar um það hvort UST gæti fengið heimildirnar 516 afhentar eður ei.

Að mati héraðsdóms hafði skiptastjórum verið heimilt að selja umræddar heimildir frá sér og að UST væri ekki rétthafi að þeim í skilningi laga um gjaldþrotaskipti. Sérstaklega sé tekið fram í lögum að viðskipti með losunarheimildir séu frjáls.

Í upphafi krafðist UST þess að þrotabúið myndi skila stofnuninni söluandvirði heimildanna en með bókun í þinghaldi í febrúar þessa árs var kröfunni breytt á þann veg að búið myndi skila heimildunum.

„[Óumdeilt er] að þau réttindi sem ágreiningur máls þessa lýtur að eru ekki lengur í vörslum [þrotabúsins]. [UST] krefst viðurkenningar á tiltekinni stöðu réttindanna í skuldaröð við gjaldþrotaskipti á búi [Wow] og skila [þrotabúsins] á þeim, en kaus að falla frá því að krefja [búið] um skil á andvirði réttindanna,“ segir í úrskurði Landsréttar.

Að mati Landsréttar væri ekki unnt að leysa úr málinu á grundvelli 2. mgr. 109. gr. gjaldþrotaskiptalaganna, sem kveður á um að hafi þrotabúið selt réttindi sem tilheyrir öðrum skuli skila söluandvirðinu, heldur yrði að leysa úr ágreiningnum á grundvelli 1. mgr. sömu greinar. Sú kveður á um að afhenda skuli eign eða réttindi þrotabús þriðja aðila takist honum að sanna eignarrétt sinn að þeim.

„Ef úrskurður gengi um þá kröfu [Umhverfisstofnunar] á [grunni 1. mgr. 109. gr.] yrði þannig komist að niðurstöðu sem ekki væri unnt að fullnægja samkvæmt efni sínu,“ segir í niðurstöðu Landsréttar. Með þeim rökum, og með vísan til forsendna úrskurðar héraðsdóms, var úrskurðurinn staðfestur og stofnuninni gert að greiða þrotabúinu 250 þúsund krónur í kærumálskostnað.