Samkeppniseftirlitinu barst seint í gær kvörtun frá bandarískum fjárfestum vegna söluferlis Icelandic Group. Þetta staðfestir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, við Viðskiptablaðið. Hann segir að kvörtunin hafi borist frá aðilunum sjálfum en ekki bandaríska viðskiptaráðuneytinu.

Í frétt á vef IntraFish í gær var sagt frá því að tveir bandarískir fjárfestingasjóðir hafi leitað til viðskiptaráðuneytisins þar í landi vegna söluferlis Icelandic Group. Sjóðirnir, sem vilja leggja fram sameiginlegt kauptilboð í félagið, eru ósáttir með að fá ekki að bjóða í félagið.

Framtakssjóður Íslands ræðir nú við evrópska fjárfestingasjóðinn Triton um kaup á Icelandic og hefur sagt að ekki verði rætt við aðra á meðan. Viðskiptablaðið greindi frá því fyrr í dag að FSÍ go Triton sitji nú fund. Líklegt er að komi í ljós í dag hvort erlendi hluti Icelandic verði seldur Triton.

Í frétt IntraFish segir að fjármálaráðuneytið hafi verið í óformlegum viðræðum við samkeppnisyfirvöld hér heima vegna málsins. Páll Gunnar segir að kvörtunin hafi ekki komið frá yfirvöldum í Bandaríkjunum heldur aðilum á markaði. Hann segir málið nú til skoðunar.

Viðskiptablaðið fjallaði um frétt IntraFish í gær og má lesa hér .