Í nóvember sl. komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að kjötvinnslufyrirtækin Síld og fiskur ehf. og Matfugl ehf. hefðu brotið gegn banni samkeppnislaga við ólögmætu samráði með því að hafa við Bónus nána samvinnu um smásöluverð Bónuss og afslætti frá því. Í málinu fór fram umfangsmikil athugun á m.a. tölvupóstssamskiptum Síldar og fisks og Matfugls við Bónus. Þessi gögn sýndu að í samskiptum milli Síldar og fisks og Matfugls annars vegar og Bónuss hins vegar fólst mun meiri samvinna heldur en einföld samskipti um verðmerkingar á kjöti og unnum kjötvörum. Í fréttatilkynningu Samkeppniseftirlitsins segir að akvæði samkeppnislaga banni framleiðendum og smásölum að hafa með sér samráð um endursöluverð (lóðrétt verðsamráð). Hafi þessi brot Síldar og fisks og Matfugls verið til þess fallin að valda almenningi samkeppnislegu tjóni.

"Með úrskurði í gær staðfesti áfrýjunarnefnd samkeppnismála ákvörðun Samkeppniseftirlitsins. Þannig staðfesti nefndin að þegar einn aðili fer með eignarhlut brotlegs félags að fullu sé heimilt að líta á eigandann sem hluta af hinni efnahagslegu einingu, nema sérstaklega standi á," segir í tilkynningunni.