Landsréttur staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá 10. október síðastliðnum í máli Eimskips gegn Samkeppniseftirlitinu (SKE) og vísaði frá kröfum Eimskips í málinu.

Eimskip gerði í sumar tvíþætta kröfu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur; annars vegar að rannsókn Samkeppniseftirlitsins verði úrskurðuð ólögmæt og að henni skuli hætt. Hins vegar að haldi allra þeirra gagna sem eftirlitið tók í tveimur húsleitum verði aflétt og afritum þeirra eytt.

Samkeppniseftirlitið krafðist á móti að kröfum Eimskips yrðu vísað frá. Með úrskurði sínum í dag vísar Landsréttur fyrri kröfu Eimskips frá.

Í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu segir að rannsókn eftirlitsins á ætluðum brotum Eimskips og Samskipa heldur því áfram og sætir forgangi hjá eftirlitinu.

Eftir stendur þá krafa Eimskips um að haldi allra þeirra gagna sem Samkeppniseftirlitið tók í tveimur húsleitum verði aflétt og afritum þeirra eytt. Samkvæmt tilkynningu frá Eimskip byggir sú krafa á öllum sömu röksemdum og krafan um ólögmæti rannsóknarinnar og megi vænta þess að héraðsdómur taki hana til efnislegrar meðferðar á næstu misserum. Þá segir að Eimskip muni meta réttarstöðu sína í kjölfar þessa úrskurðar.