Samkvæmt nýrri greiningu á útflutningsskýrslum fyrir heilan karfa er ekki hægt að fullyrða að Samherji hafi selt karfa til tengdra aðila á lægra verði á tímabilinu október til desember 2011 en gilti í viðskiptum annarra aðila.

Að þessu kemst Jón Ævar Pálmason, verkfræðingur hjá IFS ráðgjöf, sem hefur að eigin frumkvæði yfirfarið gögn úr rannsókninni.

Meðal gagna málsins, sem birst hafa opinberlega, voru upplýsingar úr útflutningsskýrslum fyrir heilan karfa á tímabilinu október til desember 2011, annars vegar fyrir Samherja hf. og hins vegar fyrir aðra útflytjendur. Þessi gögn voru meðal annars notuð til að rökstyðja húsleitarheimild gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 27. mars 2011.

Í kjölfarið fór hópur fólks frá ýmsum embættum inn í starfsstöðvar Samherja á Akureyri og í Reykjavík og haldlagði mikið magn gagna. Tilgangur rannsóknarinnar er að kanna hvort stjórnendur Samherja hafi brotið lög um gjaldeyrismál með því að selja sjávarafurðir til tengdra aðila á lægra verði en eðlilegt er í viðskiptum óskyldra aðila. Með því væri farið framhjá reglum um skilaskyldu þar sem gjaldeyririnn væri skilinn eftir í útlöndum.

Jón Ævar, sem meðfram starfi sínu hjá IFS ráðgjöf hefur stundað nám í tryggingastærðfræði í Madison í Bandaríkjunum, segir að tilgangur tölfræðigreiningarinnar hafi ekki verið annar en að leggja sjálfstætt mat á gögnin sem lögð voru fram í málinu. Hann tekur fram að hann hafi haft frumkvæði að þessu verkefni og hvorki Samherji, Seðlabankinn né annar hafi greitt fyrir þessa vinnu.

„Mig langaði sjálfum að vita hvað væri rétt í yfirlýsingum Seðlabankans og Samherja þar sem mikið virtist bera í milli þess sem sagt var opinberlega,“ segir Jón.

Nánar er fjallað um málið í fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.