Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra segir að ákvörðun um makrílkvóta fyrir árið í ár sýni að Íslendingar vilji stunda ábyrgar veiðar. Eins og fram kom í fréttum í morgun leggur Sigurður Ingi til að makrílkvótinn í ár verði 147.721 tonn eða um 16,6% af ráðgjöf Alþjóða hafrannsóknaráðsinsn (ICES) sem er 889.886 tonn.

„Hér eftir sem hingað til munum við gera okkar allra besta til að ná sanngjörnum samningi um veiðar á makríl við öll hin strandríkin - en sá samningur mun ekki geta grundvallast veiðum langt umfram ráðgjöf vísindamanna. Heildaraflinn er í góðu samræmi við það sem við kröfðumst í samningaviðræðum um skiptingu kvótans,“ segir Sigurður Ingi.

Samhliða þessari ákvörðun hefur ráðherra undirritað reglugerð um makrílveiðar íslenskra skipa árið 2014. Þar er leyfilegum heildarafla skipt á milli skipaflokka þannig; til smábáta 6.000 tonn, til ísfisksskipa 7.917 tonn, til frystitogara 30.682 tonn og til uppsjávarskipa 103.121 tonn. Gert er ráð fyrir að fyrirkomulag veiða verði að öðru leyti sambærilegt og á síðasta ári.

Í nýgerðum makrílsamningi Evrópusambandsins, Noregs og Færeyja ætla þessar þjóðir sér heildarafla í ár langt umfram heildarveiðiráðgjöf ICES. Miðað við 1.240 þúsund tonna heildarveiði nemur 148 þúsund tonna afli Íslands 11,9% af heildarafla samkvæmt samningnum.