Landsréttur staðfesti í gær úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að óbólusettur einstaklingur, búsettur hér á landi, sem kom hingað til lands frá Svíþjóð skuli sæta sóttkví þar til niðurstaða úr seinni sýnatöku vegna Covid-19 lægi fyrir.

Maðurinn byggði á því að tiltekna grein reglugerðar um sóttkví, einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna Covid-19 skorti lagastoð. Samkvæmt nýjum sóttvarnalögum væri heimild að setja einstaklinga í sóttkví sem „grunur leikur á að hafi verið útsettir fyrir smiti“ og hið sama gilti samkvæmt reglugerðinni.

Benti maðurinn á að ferðamenn sem kæmu hingað til lands, óbólusettir jafnt sem bólusettir, skyldu fara í sýnatöku á landamærunum. Í þeim tilfellum þegar sýnataka reyndist neikvæð væru ekki meiri líkur á að ferðamaður bæri með sér smit frekar en aðrir einstaklingar. Þá væri nýgengni smita í Svíþjóð um þessar mundir lægri en á Íslandi. Að auki stæðist ekki jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að mismuna einstaklingum með þessum hætti.

Sóttvarnalæknir taldi aftur á móti að full lagastoð væri fyrir umræddum aðgerðum og að almannaheill byggi þeim að baki. Ekki væri um sambærileg tilvik að ræða hvað óbólusetta og bólusetta varðaði og því ætti jafnræðisreglan ekki við. Nauðsynlegt væri að vista manninn í sóttkví til að „fyrirbyggja hugsanlega útbreiðslu Covid-19, sem ógnað geti öðrum einstaklingum og velferð almennings“.

„Þegar litið er til þeirra skyldna sem hvíla á löggjafarvaldinu og stjórnvöldum til að vernda líf og heilsu landsmanna þegar farsóttir geisa verður að játa þeim nokkurt svigrúm við mat á því hvað teljist nauðsynlegar aðgerðir á hverjum tíma. Ekki eru efni til að líta svo á að ákvæði reglugerðarinnar og ákvarðanir um aðgerðir á landamærum, sem miða að því að draga úr hættu á því að farsóttir berist til landsins sem eðli málsins samkvæmt beinast að þeim sem koma til landsins frá útlöndum, falli utan þess svigrúms sem gildir við mat stjórnvalda á nauðsyn aðgerða hverju sinni,“ segir í niðurstöðu Landsréttar.

Upplýsingar um nýgengni smita nægðu ekki til að hreyfa við réttinum og staðfesti hann því að manninum væri skylt að sæta sóttkví til miðnættis í gær eða þar til að hann fengi niðurstöður úr síðari skimun, hvort heldur sem kæmi á undan.