Efnahags- og viðskiptanefnd þingsins leggur til nokkrar breytingar á frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld. Meðal þess sem nefndin leggur til er brottfall staðgreiðsluskyldu vegna vaxtatekna af skráðum skuldabréfum. Þetta kemur fram í áliti nefndarmeirihlutans sem birt var á vef Alþingis í dag.

Fjallað var um frumvarpið og athugasemdir við það í Viðskiptablaðinu undir lok janúar. Í frumvarpinu er farið um víðan völl og skattalöggjöfinni breytt á ýmsan hátt. Meðal annars er þar að finna plástrun vegna þeirrar stöðu sem verið hefur uppi við meðferð skattalagabrotamála hér á landi.

Í frumvarpinu er lagt til að staðgreiðsluskylda af söluhagnaði íslenskra hluta- og stofnbréfa falli niður. Nokkur fjöldi umsagna barst þess efnis að rétt væri að gera sams konar breytingu á skattlagningu vaxtatekna af skráðum skuldabréfum enda stæði núgildandi fyrirkomulag í vegi erlendrar fjárfestingar hér á landi. Nefndin tók undir þau rök og leggur til að staðgreiðsluskylda af vaxtatekjum skráðra hlutabréfa falli brott. Nefndin veltir því einnig upp hvort rétt sé að rýmka undanþágu frá skattskyldunni þannig að hún nái almennt yfir skráð skuldabréf á markaði.

Sjá einnig: Ómöguleiki í vegi erlends fjármagns

„Skattskyldunni var komið á [..] „til að mæta því mikla tekjufalli og þeim útgjaldaauka sem ríkissjóður hefur orðið fyrir vegna efnahagshrunsins og þeirra miklu skulda sem það skilur eftir sig“ líkt og fram kemur í greinargerð frumvarps þess er varð að þeim lögum. Meiri hlutinn telur að ástæða sé til að endurmeta forsendur skattskyldunnar, þ.e. hvort hana skuli afnema eða hvort skynsamlegt sé að gera á henni breytingar með öðrum hætti, svo sem með endurskoðun undanþága frá henni,“ segir í áliti nefndarinnar. Áður en það verði gert þurfi hins vegar að vinna mat á áhrifum þess og er lagt til að fjármálaráðuneytið taki málið til skoðunar.

Í umsögnum við frumvarpið var einnig bent á það að með sömu rökum mætti endurskoða staðgreiðsluskyldu vegna arðgreiðslna á milli innlendra félaga með takmarkaðri ábyrgð hluthafa. Nú er við lýði það hlutabréfa að greiðanda arðs bæri að halda eftir staðgreiðslu og standa skil á henni. Var meðal annars lagt til að skilaskylda staðgreiðslu af arði hlutabréfa sem skráð eru í verðbréfamiðstöð verði færð frá útgefanda yfir á fjármálafyrirtæki sem sér um vörslu bréfanna.

„Meiri hlutinn telur þær ábendingar sem hér hafa verið raktar eiga við rök að styðjast. Leggur meiri hlutinn til að við frumvarpið bætist kafli um breytingu á lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur þar sem kveðið verði á um að afnumin verði skylda þeirra félaga sem falla undir 1. tölul. 2. gr. tekjuskattslaga til að halda eftir og skila staðgreiðslu af arðgreiðslum þeirra á milli sem og að skilaskylda staðgreiðslu af arðgreiðslum rafrænt skráðra hlutabréfa færist frá útgefanda yfir á það innlenda fjármálafyrirtæki sem hefur bréfin í sinni vörslu,“ segir í álitinu.

Meðal annarra breytinga sem eru lagðar til eru að lækka álagningu vörugjalds á húsbíla, frestur Skattsins til afgreiðslu á inneignarskýrslum verði ekki lengdur úr 21 degi í þrjátíu og að endingu breytingar um gildistöku frumvarpsins. Í þeim tilvikum sem um ívilnandi breytingar er að ræða er lagt til að gildistakan verði afturvirk.

Undir álit meirihlutans skrifa Sjálfstæðismennirnir Óli Björn Kárason, Brynjar Níelsson og Birgir Ármannsson, sá síðastnefndi vegna forfalla Bryndísar Haraldsdóttur. Ólafur Þór Gunnarsson, Vinstri grænum, og Þorsteinn Víglundsson, Viðreisn, mynda meirihlutann með þeim. Áhugavert er að Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins, er ekki á áliti meirihlutans. Nefndarálit frá minnihlutanum hafa ekki skilað sér á vef þingsins.