*

miðvikudagur, 20. janúar 2021
Innlent 14. desember 2020 11:50

Hægt að fá frest fram á sumar

Launagreiðendur sem orðið hafa fyrir miklu tekjufalli geta óskað eftir auknum fresti til að standa skil á staðgreiðslu skatta.

Ritstjórn
Eyþór Árnason

Í samtali við Morgunblaðið segir Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar, að þeir launagreiðendur sem orðið hafa fyrir miklu tekjufalli yfirstandandi ári geti óskað eftir auknum fresti til að standa skil á staðgreiðslu skatta af launum og tryggingjaldi fram á næsta sumar. 

Lögin gera ráð fyrir að fyrirtæki geti farið fram á aukin frest, kalli aðstæður á það. Til að geta fengið fyrrnefndan frest þarf að óska eftir því við Skattinn, en auk þess er hægt að óska eftir að greiðslunum verði dreift niður á þrjá mánuði. Ef Skatturinn samþykkir að veita tilteknu fyrirtæki frest verður greiðslum dreift niður á sumarmánuðina júní, júlí og ágúst.

Willum segir við Morgunblaðið að engin ákvörðun hafi verið tekin um hvort frekari frestanir, en þær sem að ofan eru nefndar, muni standa til boða. Það verði tíminn að leiða í ljós.

Alþingi samþykkti í vor aðgerð vegna COVID-19 faraldursins sem fól í sér heimild fyrirtækja til að óska eftir fresti á greiðslu afdreginnar staðgreiðslu og greiðslu tryggingagjalds sem hefðu átt að falla í gjalddaga á tímabilinu 1. apríl 2020 til 1. desember 2020. Gátu félög, sem uppfylltu skilyrði um rekstrarerfiðleika, en væru þó ekki í vanskilum með opinber gjöld og skýrsluskil, óskað eftir frestun til 15. janúar 2021.