Umræður fyrir Alþingiskosningar um auðlindir og umhverfismál á RÚV 11. október:

Björt Ólafsdóttir , þingmaður Bjartrar framtíðar:

„Helsta leið fyrir okkur til að draga úr kolefnislosun er að hætta með mengandi stóriðjur. Það er stærsti hlutinn, eða um 47%, af því sem við losum út, kemur frá mengandi stóriðjum.“

Hið rétta er að kolefnislosun í heiminum er ekki staðbundið heldur hnattrænt vandamál. Í stóriðju á borð við álframleiðslu verður losun gróðurhúsalofttegunda almennt mest við orkuvinnslu. Þar sem íslensk orka er umhverfisvæn með tilliti til losunar, þá er heildarlosun af íslenskri álframleiðslu sexfalt minni en af álverum knúnum gasorku í Mið-Austurlöndum og tífalt minni en af kolaknúnum álverum í Kína.

Um þetta hefur víða verið fjallað, m.a. af dr. Þresti Guðmundssyni í greininni „Íslensk álvinnsla – forsendur og gróðurhúsaáhrif“ í ritinu Þekkingarbrunnur – nýsköpunarbók. Þröstur flutti erindi byggt á þeirri greiningu á ársfundi Samáls árið 2014 undir yfirskriftinni „Kolefnisfótspor áls“.

Ef álframleiðsla myndi flytjast frá Íslandi eru mestar líkur á að henni yrði fundinn staður í Kína, þar sem langmest uppbygging hefur verið á síðustu árum og meginþorri álvera er knúinn með kolum. Víst myndi það draga úr kolefnislosun á Íslandi, en það myndi dýpka á hnattræna vandanum við losun gróðurhúsalofttegunda.

Tölfræðina sem Björt vísar til má finna á heimasíðu Orkustofnunar, en þar er losun Íslands á gróðurhúsalofttegundum árin 1990-2014 skipt upp eftir helstu flokkum. Losunin árið 2014 skiptist þannig:

http://umhverfisstofnun.is/einstaklingar/loftslagsbreytingar/losun-islands/

Björt hefur talað um ferðamennsku sem hina nýju stóriðju. En hún lætur vera að geta þess, að losun frá millilandaflugi flugfélaga sem hafa aðsetur á Íslandi er veruleg og ekki talin með í listanum hér að ofan, en umhverfis- og auðlindaráðherra gerði þeirri losun skil í svari við fyrirspurn á Alþingi síðastliðið vor.

http://www.althingi.is/altext/145/s/1328.html

Þá kom nýlega fram hjá umhverfis- og auðlindaráðherra að losun frá framræstu landi er langsamlega stærsti hluti losunar gróðurhúsalofttegunda á Íslandi og ljóst að þar liggja gríðarleg tækifæri til kolefnilosunar hér á landi – og það hefur raunveruleg og jákvæð hnattræn áhrif.

http://www.althingi.is/altext/pdf/145/s/0215.pdf

Fram að Alþingiskosningum þann 29. október næstkomandi mun Viðskiptablaðið vega og meta ummæli sem frambjóðendur flokkanna láta falla á opinberum vettvangi. Ummælin verða sannreynd og niðurstaðan birt. Þessi liður mun birtast á vefsíðu Viðskiptablaðsins og bera yfirskriftina Staðreyndavogin.

Fleiri greinar úr Staðreyndavoginni :