Íslandsbanki hefur lokið útboði vegna stækkunar á tveimur flokkum sértryggðra skuldabréfa sem voru teknir til viðskipta í Kauphöllinni í mars í fyrra. Annars vegar var um að ræða stækkun flokksins ISLA CBI 19 um 270 milljónir króna ávöxtunarkröfunni 2,75% og hins vegar á flokknum ISLA CBI 24 sem var stækkaður um 1.010 milljónir á ávöxtunarkröfunni 3,00%.

Heildarstærð ISLA CBI 19 útgáfunnar er nú orðin 4.570 milljónir króna og heildarstærð ISLA CBI 24 útgáfunnar orðin 6.460 milljónir. Alls hefur Íslandsbanki gefið út sértryggð skuldabréf upp á 17.550 milljónir frá fyrstu útgáfu bankans á slíkum bréfum í desember árið 2011, að því er segir í tilkynningu.

Bréfin voru seld til breiðs hóps fagfjárfesta. Heildareftirspurnin í útboðinu nam 1.620 milljónum króna en 79% tilboða upp 1.280 milljónir var tekið.

Stefnt er á að bréfin verði tekin til viðskipta í Kauphöllinni 13. júní næstkomandi. Viðskiptavakt fyrir alla flokka sértryggðra skuldabréfa Íslandsbanka er á vegum MP banka, að því er segir í tilkynningunni.