*

laugardagur, 4. desember 2021
Innlent 14. október 2021 19:15

Stækka við sig á fertugsaldri

Metár var hjá Garðheimum í fyrra en fjölskyldufyrirtækið fagnar nú stórafmæli og er á leið í nýtt og stærra húsnæði.

Ritstjórn
Kristín Helga Gísladóttir, framkvæmdarstjóri Garðheima.
Eyþór Árnason

Garðheimar standa á tímamótum á 30 ára afmæli fyrirtækisins. Eftir 22 ár í Stekkjarbakka mun fjölskyldufyrirtækið flytja starfsemi sína yfir Breiðholtsbrautina í nýtt 6.800 fermetra húsnæði í Suður-Mjódd. Kristín Helga Gísladóttir, framkvæmdastjóri Garðheima, segir hönnunarvinnu langt komna en stefnt er að fyrirtækið flytji veturinn 2022/2023.

„Við munum tvöfalda svæðið sem fer undir plöntur enda er orðið mjög þröngt um þær þar sem við erum í dag," segir Kristín Helga. Veitingastaðurinn Spíran mun flytja með Garðheimum en auk þess stendur að leigja út hluta húsnæðisins. Þá verður verslunin og lager félagsins á einum stað en Garðheimar leigja í dag lagerhúsnæði í Kópavogi.

Rekja má sögu fyrirtækisins aftur til ársins 1991 þegar foreldrar Kristínar Helgu, hjónin Gísli Sigurðsson og Jónína S. Lárusdóttir, opnuðu verslunina Gróðurvörur á Smiðjuvegi.

„Það eru þrjátíu ár síðan foreldrar mínir kaupa verslun Sölufélags garðyrkjumanna á Smiðjuveginum í Kópavogi. Garðyrkja hefur alltaf verið mikið áhugamál í fjölskyldunni. Þannig kom það til í upphafi að foreldrar okkar keyptu Sölufélags garðyrkjumanna og gerðu þannig áhugamálið sitt að atvinnu."

Fjölskyldan á og rekur fyrirtækið enn í dag en börn hjónanna hafa tekið við rekstrinum. „Við erum fjögur systkinin og störfum öll hérna. Garðyrkjan er mjög heillandi heimur þar sem það er alltaf eitthvað nýtt að gerast," segir Kristín Helga.

Fyrirtækið flutti starfsemi sína í núverandi húsnæði að Stekkjarbakka árið 1999 og tók þá upp nafnið Garðheimar. Hagar, eigandi lóðarinnar að Stekkjabakka, tilkynntu þeim fyrir nokkrum árum að félagið hefði hug á byggja á lóðinni íbúðir og atvinnuhúsnæði. Í kjölfarið hófst leit að nýrri staðsetningu.

Metsala í faraldrinum

Garðheimar er eitt þeirra fyrirtækja sem notið hafa góðs af aukinni heimaveru landsmanna í heimsfaraldrinum. Tekjur Garðheima jukust um 30% á milli áranna 2019 og 2020 úr einum milljarði í 1,3 milljarða króna. Þá jókst hagnaður félagsins úr 22 milljónum króna í 138 milljónir króna á milli ára. „Það varð mjög mikil aukning í plöntusölu, bæði inni og útiplöntum, þar sem fólk er að verja mun meiri tíma inni á heimilinu."

Kristín Helga segir að sala gæludýrafóðurs hafi aukist töluvert þar sem margir hafi greinilega bætt gæludýri inn á heimilið en Garðheimar reka einnig stóra gæludýradeild. „Síðustu jól jókst sala á ljósaseríum svo töluvert mikið. Það lentu margir í vandræðum með seríur enda var skortur á þeim í allri Evrópu," segir hún. Þá hefur áhuginn á garðrækt og plöntum haldið sér það sem af er ári þrátt fyrir að létt hafi verið á samkomutakmörkunum. „Salan það sem af er ári hefur verið álíka og í fyrra sem við erum mjög sátt við. Enda var mesta söluaukning frá stofnun fyrirtækisins í fyrra.“

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins, sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér.