Rúnar Sigurpálsson, fjármálastjóri Becromal, segir niðursveiflu efnahagslífsins í Evrópu meginskýringu fyrir ákvörðun um að fresta stækkun verksmiðju félagsins í Krossanesi við Akureyri. Til stóð að stækka hana og skapa þannig 30 til 50 störf til frambúðar. Því hefur nú verið slegið á frest. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Í dag er verksmiðjan keyrð á um 70% afköstum en framleiðslugeta hennar er um 9 milljónir fermetra á ári. Um 110 manns starfa hjá verksmiðju Becromal á Íslandi. Veltan í fyrra nam um 78 milljónum evra, eða um 12.361 milljón króna.