Allt að 50 ný störf gætu skapast á Akureyri fari svo að ítalska fyrirtækið Becromal ákveði að stækka aflþynnuverksmiðju sína þar í bæ. Samkvæmt frétt Morgunblaðsins verður endanleg ákvörðun um stækkun tekin á þessu ári en haft er eftir Eyþóri Arnalds, framkvæmdastjóra Strokks Energy sem á 40% hlut í aflþynnuverksmiðjunni, að ýmsir óvissuþættir gætu haft áhrif á ákvörðunina. Nefnir hann í því samhengi sérstaklega að stöðugleiki verði að nást á vinnumarkaði þar sem verkföll verði Becromal á Íslandi afar dýr og gætu sett stækkunina í uppnám.

Í dag starfa um 100 manns við verksmiðjuna og er full afkastageta hennar um 120 þúsund fermetrar af aflþynnum á viku en nú afkastar hún um 100 þúsund fermetrum. Eyþór segir að frá upphafi hafi verið rætt um 30-50% stækkun sem gæti skilað 30-50 nýjum störfum. Hann segir fyrirtækið hafa aðgang að landi í Krossanesi og að orkusamningar séu fyrir hendi. Kostnaður við stækkun hlaupi á milljörðum en ekki sé hægt að segja nákvæmlega hver hann sé en núverandi verksmiðja mun hafa kostað um 10 milljarða króna í byggingu.