Alls greiddu 315 þingmenn Þýskalands með frumvarpi Angelu Merkel kanslara um stækkun og breytingar á björgunarsjóði evruríkja. Þrettán þingmenn kusu á móti og tveir sátu hjá, að því er Wall Street Journal greinir frá.

Stjórnvöld allra evruríkjanna sautján þurfa að samþykkja stækkun sjóðsins. Ef breytingar ná í gegn mun stærð hans verða 440 milljarðar evra. Stærð hans í dag er 250 milljarðar evra. Þá verða heimildir hans til skuldabréfakaupa og veitingu lánalína auknar. Ábyrgð Þýskalands vegna sjóðsins hækkar úr 123 milljörðum í 211 milljarða evra.

Þeir þingmenn sem börðust fyrir samþykki frumvarpsins í Þýskalandi sögðu mikilvægt að stuðningur fengist, stöðugleiki evrunnar væri mikilvægur fyrir áframhaldandi frið og velsæld í Evrópu.