Áætlað er að meðferð fyrsta fasa samrunamáls Marels og Völku renni sitt skeið í næstu viku, en Samkeppniseftirlitið hefur hann til skoðunar. Frestur hagsmunaaðila til að senda inn athugasemdir við fyrirætlanirnar rann út í lok júlí. Dæmi eru um að tilefni hafi þótt til íhlutunar í samruna, þar sem fyrirtæki hugðu á vöxt erlendis, sökum þess að þau hafi verið nánir keppinautar á innanlandsmarkaði.

Tilkynnt var um kaupin í byrjun júlí en óformlegar viðræður höfðu staðið yfir milli aðila frá því á vormánuðum. Samkvæmt upplýsingum blaðsins höfðu hið þýska Baader og sænska félagið JPT einnig sýnt Völku áhuga. Viljayfirlýsing var undirrituð um miðjan maí og endanlegur kaupsamningur undirritaður 1. júlí, en hann tekur til rúmlega 91% útgefinna hluta í Völku. Helmingur kaupverðsins verður greiddur í reiðufé en hinn helmingurinn í formi hluta í Marel, sem seljendum ber að eiga í minnst átján mánuði. Minni hluthöfum býðst að selja Marel hlutina á sama gengi en geta þó fengið allt í formi reiðufjár.

Stærsti hluthafi Völku er Ice Tech ehf., sem er í eigu Samherja, en Valka á heiðurinn af tækjabúnaði í vinnsluhúsum félagsins á Dalvík og Akureyri, með um fimmtungshlut og þá á framkvæmdastjórinn Helgi Hjálmarsson 15,45%. Vogabakki, í eigu Árna Haukssonar og Hallbjarnar Karlssonar, á 14,38%, Vindhamar, sem Kári Hallgrímsson á, á tæp 14% og Fossar, félag Sigurbjarnar Þorkelssonar, á tæp tólf. Aðrir eiga smærri hlut. Upphaf starfsemi Völku má rekja til ársins 2003 þegar Helgi sagði skilið við Marel til að þróa sínar hugmyndir áfram. Þá hafa nokkrir lykilstarfsmanna Völku áður starfað hjá Marel.

Samkeppni um verk og þekkingu

Sem kunnugt er þróar Marel og framleiðir hátæknivélbúnað til matvælavinnslu, þá jafnt fyrir fisk-, kjöt- og alifuglavinnslur. Undanfarin ár hefur kjöt- og alifuglahlutanum vaxið fiskur um hrygg á meðan tekjur í fiskvinnsluhlutanum hafa tekið minni breytingum. Þá hefur afkoma fyrri þáttanna tveggja oftar en ekki verið betri en af fiskvinnsluþættinum.

Nokkur skörun hefur verið í vöruframboði Völku og Marels og liggur fyrir að talsverð samkeppni hefur verið milli þeirra um verkefni, bæði hér heima og í Noregi. Á þeim mörkuðum hefur Valka náð góðri fótfestu, sér í lagi í Noregi hvað varðar vinnslu tengda laxeldi, meðal annars stórt verkefni fyrir laxeldisrisann Salmar, en á öðrum mörkuðum hefur árangurinn enn sem komið er verið minni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .