*

miðvikudagur, 16. júní 2021
Innlent 27. maí 2018 12:01

Stærð lífeyriskerfisins „lúxusvandi"

Ásgeiri Jónssyni hugnast breytingar á lífeyriskerfinu úr sjóðssöfnunarkerfi í gegnumstreymiskerfi illa.

Ingvar Haraldsson
Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði og deildarforseti Hagfræðideildar Háskóla Íslands.
Haraldur Guðjónsson

Gylfi Magnússon, dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, segir lífeyrissjóðakerfið að mörgu leyti í góðri stöðu í samanburði við nágrannalöndin. Hins vegar sé ljóst að kerfið muni halda áfram að stækka á næstu árum. „Kerfið er náttúrulega orðið mjög stórt miðað við hagkerfið, og fjármálamarkaðinn,“ segir Gylfi.

„Það blasir við að lífeyrissjóðirnir eru þegar nokkurn veginn búnir að kaupa það sem þeir geta hér innanlands og ekki mikið svigrúm til þess að auka innlendar fjárfestingar. Allar tilraunir til þess gætu haft áhrif á þætti á borð við vexti, verð á hlutabréfum eða jafnvel fasteignum,“ segir Gylfi.

Gylfi hefur lagt til að hluti þeirra iðgjalda sem nú renna í sjóðsöfnun verði breytt í gegnumstreymiskerfi.  „Núna byggir kerfið að mestu á sjóðssöfnun og það er eiginlega bara Tryggingastofnun sem er með  gegnumstreymiskerfi. Það er að mínu mati allt eins hægt allavega að skoða þann möguleika að nýta hluta af iðgjöldum í gegnumstreymiskerfi sem er haldið utan um sérstaklega og ekki hluti af Tryggingastofnun, þar sem fólk fengi réttindin en myndi ekki kalla á jafn mikla sjóðssöfnun.”

Ásgeiri Jónssyni, forseti Hagfræðideildar Háskóla Íslands, hugnast breytingar á lífeyriskerfinu úr sjóðssöfnunarkerfi í gegnumstreymiskerfi illa.

„Svona kerfi eru gríðarlega viðkvæm fyrir lækkandi fæðingartíðni og lægri framleiðni launa þannig að betra væri að byrði á þeim sem eru á vinnumarkaði myndi ekki aukast,” segir Ásgeir. „Núverandi sjóðasöfnunarkerfi hefur gengið mjög vel upp. Þetta er hálfgerður lúxusvandi að tala um of mikinn sparnað,” segir Ásgeir.

Þá sé  sjóðsöfnunarkerfið  að valda mjög heppilegum þjóðhagslegum áhrifum. „Þessi mikli viðskiptaafgangur sem við erum að upplifa núna stafar ekki bara af ferðaþjónustu heldur stafar hann líka af því að lífeyriskerfið býr til sparnað í landinu sem annars hefði kannski verið eytt í neyslu,” segir Ásgeir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.