*

sunnudagur, 19. september 2021
Innlent 17. janúar 2021 14:05

Stærð markaðarins gæti tvöfaldast

Forstjóri Kauphallarinnar telur forsendur fyrir því að tvöfalda stærð markaðarins, hvað varðar markaðsvirði og fjölda félaga á markaði.

Sveinn Ólafur Melsted
Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar.
Eyþór Árnason

Að sögn Magnúsar Harðarsonar, forstjóra Kauphallarinnar, sem er í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, eru forsendur til staðar fyrir því að tvöfalda stærð íslenska markaðarins, bæði hvað varðar markaðsvirði sem og fjölda félaga á markaðnum.

„Við höfum trú á að íslenski hlutabréfamarkaðurinn geti komist á svipaðan stall og markaðir á hinum Norðurlöndunum. Að því gefnu ættu að vera forsendur fyrir hendi til að a.m.k. tvöfalda stærð íslenska markaðarins í fjölda félaga og markaðsvirði. Þá er ekki óalgengt að hlutdeild einstaklinga á hlutabréfamörkuðum erlendis sé um 15% en hér á Íslandi er hún um 5-6%. Miðað við það væri því ekki óeðlilegt ef þátttaka einstaklinga á hlutabréfamarkaði myndi tvö- til þrefaldast hér á landi."

Síðasta sumar tilkynnti MSCI, eitt stærsta vísitölufyrirtæki heims, að íslenski hlutabréfamarkaðurinn yrði flokkaður sem vaxtarmarkaður í vísitölu MSCI og verður vægi íslenska markaðarins í vísitölunni 5,24%. Þykir þetta gefa íslenska markaðnum ákveðinn gæðastimpil en flokkunin mun þó ekki taka gildi fyrr en á vormánuðum, nánar tiltekið í maí. Magnús segir þessa flokkun mikinn áfanga fyrir Kauphöllina, enda bendi margt til þess að hún muni gera íslenska markaðinn fýsilegri fyrir erlendum fjárfestum.

Auk þess bendir Magnús í þessu samhengi á að Kauphöllin eigi enn inni ágóðann af kerfisuppfærslu sem átti sér stað hjá Nasdaq verðbréfamiðstöð síðastliðið haust. „Áður var ákveðinn þröskuldur fyrir erlenda fjárfesta að koma inn á markaðinn þar sem uppgjörsumhverfið var áður ekki nógu staðlað eða alþjóðlegt. En eftir þessa uppfærslu erum við komin með fyrsta flokks kerfi og umgjörð sem stenst allar kröfur."

Skráning Íslandsbanka yrði vítamínsprauta

Magnús telur að ofangreindir þættir, sem sagt aukin þátttaka einstaklinga og erlendra fjárfesta á innlendum hlutabréfamarkaði, muni hvetja til nýskráninga.

„Ef af skráningu Íslandsbanka verður, sem ýmislegt bendir til, þá mun það virka sem vítamínsprauta fyrir hlutabréfamarkaðinn." Magnús kveðst jafnframt trúa því að stjórnvöld og Seðlabankinn muni greiða leið erlendra fjárfesta. „Ég hef sem dæmi ekki trú á öðru en að Seðlabankinn geri breytingar á tilkynningarskyldu þegar kemur að nýfjárfestingum erlendra fjárfesta. Því það má ekki gleyma því að það er gott fyrir ríkissjóð að greiða fyrir aðkomu erlendra fjárfesta, einfaldlega vegna fjármögnunarþarfar ríkisins."

Magnús segir lestur á greinargerðum Bankasýslu ríkisins og fjármálaráðherra um mögulega sölu hluta Íslandsbanka hafa verið ánægjulega, þar sem þar komi fram mikil tiltrú á getu íslenska markaðarins. „Að því gefnu að Íslandsbanki sé verðlagður í takt við Arion banka og það verði seldur fjórðungur af bankanum, erum við að tala um útboð sem gæti slagað upp í 40 milljarða króna. Það að Bankasýslan leggi ekki til að skráningin fari fram á öðrum markaði erlendis, eða í formi tvískráningar, lýsir mikilli trú á íslenska markaðnum. Þar tel ég að þættir, líkt og aukin þátttaka almennings á markaðnum og hve vel þessi stóru útboð í haust hjá Icelandair og Reitum gengu, leiki lykilhlutverk."

Nánar er rætt við Magnús í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér