Takmörkun á stærð og eignarhald ríkis á innlánsstofnunum kemur niður á rekstrarárangri þeirra samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sem Snorri Jakobsson framkvæmdi fyrir mastersritgerð sína í hagfræði, Áhrif eignarhalds á rekstrarárangur íslenskra innlánsstofnana.

Í rannsókninni voru mæld gæði rekstrar innlánsstofnana á tímabilinu 1997 til 2007. „Íslenskar innlánsstofnanir voru töluvert langt frá hagkvæmustu stærð samkvæmt erlendum rannsóknum og almennt viðurkenndum stöðlum. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að helstu virðishvatar í rekstri innlánsstofnana á tímabilinu, eftir að leiðrétt var fyrir gengishækkunum, var stærðarhagkvæmni. Stækkunin dró niður kostnað á hverja einingu,“ segir hagfræðingurinn Snorri.

Snorri segir að niðurstöðurnar bendi til að hömlur á stækkun bankakerfis skili ekki hagkvæmum rekstri. „Það að setja stólinn fyrir dyrnar og segja innlánsstofnunum að þær eigi einungis að starfa á innanlandsmarkaði eða að takmarka mjög stærð þeirra, er ekki vænlegt til að skila hagkvæmu bankakerfi né bankakerfi sem getur stutt við íslenskt atvinnulíf. Ef virkt eftirlit er til staðar og krafa um eiginfjárhlutfall, hamlar það hröðum vexti,“ segir Snorri.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð .