Við þykjumst öll góðir mannþekkjarar, enda reynir á þá kunnáttu oft á dag. Ekki síður á það við í viðskiptalífinu þar sem eiginleikar á borð við traust og leiðtogahæfileika eru beinlínis gulls í gildi. Flest getum við lesið líkamstjáningu annarra, oft ómeðvitað, en getum síðar lýst handabandi þeirra, augnaráði og burði af nokkurri nákvæmni.

Ekki skiptir þó minna máli að geta lesið í innra byrði manna og þar getur rithöndin gefið margar vísbendingar.

Nú skrifar fólk auðvitað misvel, en hvort sem það hefur fegurstu kansellíhönd eða ólesandi læknahönd, má lesa mikið úr henni. Þar segir undirskriftin heilmikla sögu, enda hafa flestir komið sér upp sérstakri undirskrift, sem er hluti af sjálfi þeirra, þar sem hið sérstaka er dregið fram, stílfært og greipt í pappír: Maður á blaði.

Á dögum rafrænna samskipta er undirskriftin líka oft orðið hið eina, sem fólk skrifar enn með eigin hendi að staðaldri, þó auðvitað kunni tæknin að breyta því aftur síðar meir. Allt er þetta auðvitað frekar órætt og gleymum ekki heldur hinu, að undirskriftin er stílfærð sjálfsmynd, sem þarf ekki að vera í góðu samræmi við raunveruleikann. En sumt má beinlínis mæla og undirskrift fólks er þar á meðal. Hana má einfaldlega mæla með reglustiku.

Lesa má um rithönd ýmissa einstaklinga í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins. Þar má jafnframt sjá nokkur dæmi um það hvernig fólk ritar nafn sitt. Á meðal dæma er rithönd Björgólfs Guðmundssonar, Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar og fleiri.