Gert er ráð fyrir að að Allrahanda GL ehf., sérleyfishafi Gray Line á Íslandi, verði í minnihluta í fyrirhuguðum samruna félagsins við Reykjavík Sightseeing sem rekur vörumerkin Reykjavík Sightseeing, SmartBus og dótturfélagið Airport Direct. Þetta kemur fram í samrunaskrá félaganna sem félögin sendu til Samkeppniseftirlitsins og Viðskiptablaðið hefur undir höndum. Greint var frá því í byrjun júlí að félögin hefðu sent Samkeppniseftirlitinu greinargerð um fyrirhugaða sameiningu og var meginástæðan óhagstæð rekstrarskilyrði sem leitt höfðu til óviðunandi afkomu.

Í samrunaskránni kemur fram að hluthafar félaganna hafi fyrst rætt hugsanlega sameiningarmöguleika í febrúar á þessu ári en frá því að ljóst var að gagnkvæmur áhugi væri á að skoða þann kost frekar var fyrirtækjaráðgjöf Deloitte falið að halda utan ferlið. Ritað var undir kaupsamning þann 7. júní síðastliðin en samrunaskráin er dagsett þann 21. júní.

Markmið samrunans er að ná sem mestri hagkvæmni í hinum sameinaða rekstri með aukinni stærðarhagkvæmi sem á meðal annars að felast í fækkun stöðugilda, sameiginlegs húsnæðis, lægri skrifstofu- og samskiptakostnaði, lægri markaðskostnaði auk þess sem sparnaður sem lýtur að áætlunarferðum og rekstri bifreiða ætti að verða umtalsverður að því er segir í samrunaskránni.

Samkvæmt tillögu Deloitte að skiptahlutföllum er gert ráð fyrir að eignarhald Reykjavik Sightseeing verði á þá leið að PAC1501 ehf. muni fara með 50,67% hlut en PAC1501 er nú langstærsti hluthafi Reykjavík Sightseeing með 89,53% hlut auk þess að eiga Hópbíla. PAC1501 er svo að fullu í eigu framtakssjóðsins Horn III sem er í rekstri Landsbréfa. Allrahanda mun svo fara með 43,4% hlut en það félag er í eigu Þóris Garðarssonar stjórnarformanns og Sigurdórs Sigurðssonar framkvæmdastjóra sem eiga hvor sinn 25,5% hlutinn auk þess sem framtakssjóðurinn Akur sem er í rekstri Íslandssjóða á 49% hlut. Þá mun Sumardalur ehf., félag í eigu Torfa G. Yngvasonar, fara með 5,9% hlut en Sumardalur á 10,43% hlut í Rekjavík Sightseeing auk þess að hafa kauprétt á 2,58% hlut í félaginu af PAC1501. Þá mun Hjörvar Sæberg Högnason fara með 0,03% hlut í Rekjavík Sightseeing eftir samrunann.

Samkvæmt skránni er ekki um að ræða samruna þar sem félögin eða annað félagið er lagt niður heldur munu félögin sem að samrunanum standa áfram verða starfrækt hvort í sínu lagi. Sameining reksturs félaganna mun fara þannig fram að Allrahanda GL selur Reykjavík Sightseeing rekstrartengdar eignir gegn afhendingu hlutabréfa í félaginu. Allrahanda mun því að öllum líkindum halda eftir eignum í meðal annars Hveravallafélaginu en bókfært virði þess var 79 milljónir í ársreikningi Allrahanda GL fyrir árið 2018, auk þess sem fram kemur í samrunaskránni að fasteign Allrahanda að Klettagörðum 4 muni verða áfram í eigu félagsins en Reykjavík Sightseeing mun hins vegar leigja hana þaðan sem sameinaður rekstur verður gerður út.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .