Krónan hefur markað sér sérstöðu með því að leggja ríka áherslu á umhverfis- og lýðheilsumál að sögn Grétu Maríu Grétarsdóttur framkvæmdastjóra. Þessi stefna hefur ekki einungis skilað Krónunni viðurkenningum heldur einnig árangri í rekstri. Ljóst er að yfirstandandi rekstrarár verður það stærsta í sögu félagsins og þá stefnir allt í að Krónan muni skila methagnaði á árinu 2019. Segja má að áhersla Krónunnar á að sýna samfélagslega ábyrgð hafi aukið samkeppnishæfni félagsins og ekki síst þess vegna hlýtur Krónan Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar árið 2019.

Rekstur Krónunnar hefur verið yfir áætlunum á fyrstu þremur ársfjórðungum 2019. Veltan á fyrstu níu mánuðum ársins nam 27,1 milljarði króna og því líklegt að hún verði á bilinu 35 til 36 milljarðar á rekstrarárinu. Til samanburðar nam veltan um 28 milljörðum árið 2018, sem og árið 2017. Síðustu þrjú ár hefur Krónan skilað á bilinu 700 til 850 milljóna króna hagnaði á ári. Á þessu ári stefnir í að hagnaðurinn fari yfir milljarð.

Fyrsta lágvöruverðsverslun Krónunnar var opnuð árið 2000 en á þeim tíma var Krónan hluti af Kaupás -samstæðunni. Auk Krónunnar rak Kaupás meðal annars matvöruverslanir undir nafni Nóatúns, 11-11 og á þessum tíma. Óhætt er að segja að mikið vatn hafi runnið til sjávar á þeim tæpu 20 árum sem liðin eru frá stofnun Krónunnar. Í dag er Krónan með 20 lágvöruverðsverslanir víðs vegar um landið, sem og tvær Kr. verslanir. Þá rekur Krónan eina Nóatúnsverslun sem og tvær Kjarvalsverslanir. Hjá Krónunni eru tæplega 400 stöðugildi en starfsmennirnir eru um þúsund. Krónan er í dag hluti af Festi. Auk Krónunnar rekur Festi N1 , Elko , vöruhótelið Bakkann og Festi fasteignir.

Komin af sjómönnum að vestan

Gréta María Grétarsdóttir, 39 ára verkfræðingur að vestan, varð framkvæmdastjóri Krónunnar í september í fyrra en áður hafði hún verið fjármálastjóri Festi.

„Ég er komin af sjómönnum að vestan,“ segir Gréta María. „Föðurfjölskylda mín er frá Súðavík og faðir minn, Grétar Kristjánsson, hefur verið á sjó alla sína tíð. Lengst af var hann skipstjóri á togaranum Gylli, sem gerður var út frá Flateyri. Ég ólst því upp við mikla nálægð við sjóinn og naut þess frelsis, sem fylgir því að alast upp úti á landi.“

Gréta María á fimm systkini. Hún var ellefu ára þegar yngstu systkinin fæddust en það voru tvíburar. Í kjölfarið flutti fjölskyldan suður á mölina.

„Mér leið mjög vel fyrir vestan en ég var líka ánægð þegar við fluttum í bæinn því ég var alltaf mikið í íþróttum og fyrir utan sund á veturna og frjálsar á sumrin var lítið í boði í þessum efnum á Flateyri enda bara 300 manna samfélag. Þegar ég flutti í bæinn prófaði ég allar íþróttir en valdi að lokum körfubolta. Ég fann mig sérstaklega vel í körfunni og ég var mjög ung, enn í 8. bekk, þegar ég byrjaði að spila með meistaraflokki ÍR. Ég lék einnig með KR og var í landsliðinu á sínum tíma. Eftir að meiðsli bundu enda á ferilinn þjálfaði ég meistaraflokk KR í tvö ár. Íþróttir hafa því alltaf verið stór hluti af mínu lífi og hafa mótað mig að mörgu leyti. Ég er til að mynda mikil keppnismanneskja.“

Eftir menntaskóla fór Gréta María í verkfræði í Háskóla Ísland og síðar í meistaranám í verkfræði, sem hún tók að hluta í Tækniháskólanum í Mílanó á Ítalíu.

„Verkfræðin er mjög góður grunnur fyrir svo margt. Þetta nám hefur nýst mér vel alls staðar þar sem ég hef starfað, hvort sem það er í smásölu, upplýsingatæknigeiranum eða bankakerfinu. Ég er alltaf að leitast við að ná betri árangri. Sem framkvæmdastjóri Krónunnar þá hugsa ég hvar kostnaðurinn verður til, hvar tekjurnar verða til og hvernig ég get náð hámarksárangri í því kerfi sem ég er að vinna með. Það skemmtilega við smásöluna er hraðinn. Ég get prófað svo margt án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því þunga regluverki sem einkennir til að mynda bankakerfið.“

VKS og Sparisjóðabankinn

Gréta María á fjölbreyttan starfsferil að baki og meðfram störfum sínum hefur hún á stundum sinnt kennslu við verkfræðideild Háskóla Íslands, sem og við MPM -nám Háskólans í Reykjavík.

Eftir verkfræðinámið í Háskóla Íslands starfaði Gréta María hjá VKS , sem var í Kögunar -samstæðunni. Þar sinnti hún gæðamálum, sem og ráðgjöf og upplýsingatækni um tveggja ára skeið eða frá árinu 2005 til 2007. Hún segir að þekking á upplýsingatækni sé gríðarlega mikilvæg fyrir stjórnendur. Sem dæmi sé sjálfvirknivæðing ferla mikilvægur þáttur í því að ná fram hagræðingu innan fyrirtækja.

Árið 2007 færði Gréta María sig yfir í Sparisjóðabankann þar sem hún starfaði sem sérfræðingur í fjárstýringu til ársins 2009.

„Það er ákveðinn kostur við að vinna í litlum fyrirtækjum. Ef ég hefði farið í einn stóru bönkunum á þessum tímapunkti þá hefði ég líklega verið föst í einhverju einu ákveðnu verkefni en hjá Sparisjóðabankanum þurfti ég að kunna að gera allt. Það er mikill lærdómur fólginn í því að skoða hlutina frá mörgum mismunandi sjónarhornum. Þannig öðlast maður skilning á því hvernig tannhjólin þurfa að snúast saman til að vélin gangi smurt.“

Frá Arion banka til Festi

Eftir dvöl sína hjá Sparisjóðabankanum starfaði Gréta María í fjárstýringu hjá Seðlabanka Íslands í tæpt ár eða til ársins 2010 þegar hún var ráðin til Arion banka. Því starfi gegndi hún í sex ár.

„Tíminn hjá Arion banka var virkilega góður. Í bankakerfinu starfar gríðarlegur fjöldi af mjög hæfu fólki. Nánast án undantekningar er þetta fólk með háskólapróf og margir með meistarapróf. Þetta var að mörgu leyti krefjandi tími enda mikið búið að ganga á rétt áður en ég kom til starfa,“ segir Gréta María og vísar til bankahrunsins á haustdögum ársins 2008. „Ég byrjaði í teymi sem hélt utan um skuldsett fyrirtæki en fljótlega var ég ráðin forstöðumaður Hagdeildar bankans. Hvort sem það er tilviljun eða ekki þá hef ég yfirleitt verið í störfum sem krefjast þess að ég hafi yfirsýn yfir allan reksturinn.“

Árið 2016 var Gréta María ráðin fjármálastjóri Festi. Því starfi gegndi hún um tveggja ára skeið.

„Ég er metnaðargjörn og mér fannst þetta vera skref upp á við á þessum tíma enda Festi stórfyrirtæki á smásölumarkaði. Ég sé sannarlega ekki eftir þessari ákvörðun.“ Gréta María gegndi stöðu fjármálastjóra Festi allt þar til í september í fyrr þegar hún var ráðin framkvæmdastjóri Krónunnar, eins og áður sagði.

„Það lá svolítið lengi í loftinu að ég myndi taka við þessari stöðu. Það frestaðist hins vegar vegna þess hversu kaup N1 á Festi tóku langan tíma að fara í gegn hjá Samkeppniseftirlitinu. Vegna þessa fékk ég mjög langan tíma til að undirbúa mig fyrir starfið. Í raun má segja að Jón Björnsson, þáverandi forstjóri Festi, hafi verið með mig í skóla á þessum tíma, sem var mjög dýrmætt fyrir mig.“

Tækifæri til vaxtar

„Reksturinn gengur mjög vel. Við finnum að áherslur okkar í umhverfis- og lýðheilsumálum, skipta viðskiptavinina máli. Við erum enn á þeim stað þegar við opnum nýja verslun að þá erum við ekki að taka af sjálfum okkur. Það eru enn ýmsar staðsetningar, markaðssvæði, sem við erum ekki inni á og það eru tækifæri fólgin í því fyrir okkur. Við sjáum frekari tækifæri til vaxtar.“

Nýjasta verslun Krónunnar var opnuð í Skeifunni í byrjun árs 2019 og á seinni hluta næsta árs mun ný Krónuverslun verða opnuð á Völlunum í Hafnarfirði.

„Til þess að reka lágvöruverðsverslun þarf ákveðinn fermetrafjölda til þess dæmið gangi upp. Kr. verslanirnar eru minni í sniðum en í dag eru þær í Vík í Mýrdal og Þorlákshöfn. Þetta er konsept sem við sjáum fyrir okkur að fara með inn á höfuðborgarsvæðið og sérstaklega þar sem færri fermetrar eru í boði. Ég get til dæmis nefnt miðbæinn í þessu sambandi. Við stefnum að því að opna Kr. verslun þar.“

Gréta María segist oft heyra að fólki þyki almennt gott að versla í Krónunni en geti ekki alveg útskýrt hvers vegna. Hún segist vita ástæðuna. Hún sé einfaldlega sú að Krónan sé að gera ótal litla hluti sem stuðli að því að fólki líði vel þegar það verslar.

„Í grunninn er markmið okkar að koma vörum á sem lægstu verði til viðskiptavina. Við erum alltaf að hugsa hvernig við getum fækkað handtökunum þannig að við getum lækkað verð til viðskiptavina. Þetta er samt ekki nóg því við hugsum líka mjög mikið út í það hvernig við getum einfaldað fólki lífið. Það er staðreynd að fólki finnst ekki endilega skemmtilegt að fara í matvöruverslun en við viljum gera það ferðalag eins þægilegt og mögulegt er. Við erum til að mynda ekki með mikið af auka framstillingum þannig að viðskiptavinurinn hefur nægt rými þegar hann gengur um verslunina og er ekki stöðugt að rekast á eitthvað. Þetta hugsum við allt saman þegar við erum að hanna búðirnar.“

Nammibarinn fjarlægður

Gréta María segir mikilvægt að verslanir komi til móts við breyttar þarfir fólks og einn liður í því sé að bjóða upp á hentugar lausnir. „Ein erfiðasta spurning dagsins er þegar makinn hringir í lok vinnudags og spyr hvað eigi að vera í matinn um kvöldið. Út frá þessu byrjuðum við að bjóða upp á það sem við köllum Korter í fjögur. Í hverri viku erum við með eina til tvær einfaldar uppskriftir sem við gefum viðskiptavinum okkar. Uppskriftirnar eru á ákveðnum stað í verslununum og á sama stað er allt hráefni sem þarf til útbúa máltíð sem tekur stuttan tíma að elda. Við höfum boðið upp á þetta í rúmt ár og þetta hefur mælst vel fyrir. Við sjáum fyrir okkur að hægt sé að taka þessa hugmynd enn lengra.

Sumir taka eftir því að við erum með ávaxtabita fyrir börnin þegar gengið er inn í verslunina, það hjálpar mörgum enda er fólk oft að versla þegar það er á leiðinni heim eftir vinnu og allir orðnir svangir. Í staðinn fyrir að gefa börnum sælgæti þá geta þau fengið ávöxt. Þessu tengt þá fjarlægðum við allt sælgæti frá afgreiðslukössum fyrir nokkru síðan og í fyrra gengum við skrefi lengri og fjarlægðum nammibari úr okkar verslunum. Við seljum sælgæti en við viljum ekki ýta því að fólki. Við erum mjög meðvituð um það hverju við stillum fram og hvernig.

Þegar gengið er inn í verslanir Krónunnar þá er alltaf fyrst gengið inn í ávaxta- og grænmetisdeildina og við höfum markvisst aukið fermetrafjöldann fyrir þær vörur. Þegar fólk kemur að gosrekkanum þá sér það sódavatn áður en það kemur að sykraða gosinu. Þar sem að því er viðkomið þá reynum við alltaf að hafa sælgætið baka til og helst þannig að viðskiptavinurinn snúi bakinu í það þegar hann gengur hjá. Svona gæti ég talið áfram. Það vilja allir borða hollan mat og við erum að reyna að hjálpa aðeins til við það og vonandi um leið að efla lýðheilsu þjóðarinnar.“

Gegn matarsóun

Auk lýðheilsumála eru umhverfismálin mjög ofarlega í forgangsröðinni hjá Krónunni. Gréta María segir að jafn stórt fyrirtæki og Krónan geti haft mikil áhrif í umhverfismálum. Fyrirtækið sé til að mynda sífellt að leita leiða til að draga úr notkun á plasti, sem og draga úr umbúða- og matarsóun.

„Við búum í breyttum heimi þar sem umhverfisvitund fólks er alltaf að aukast. Sú kynslóð sem nú er að vaxa úr grasi er gríðarlega kröfuhörð þegar kemur að umhverfismálum. Við finnum vel fyrir þessu. Fólk kemur oftar í búðina en jafnvel nokkrum sinnum í viku. Þetta er vegna þess að fólk er orðið mjög meðvitað um matarsóun. Það vill ekki gera ein stór innkaup því þá er meiri hætta á að matur fari til spillis — of mikið sé keypt og maturinn eyðileggist.

Ég trúi því að við í Krónunni séum í þeirri stöðu að geta búið til betra samfélag og haft áhrif til góðs í umhverfismálum. Við höfum verið í fararbroddi þegar kemur að matarsóun en við erum líka að leggja áherslu á orkusparnað með því að vera með lokaða kæla í okkar verslunum og lýsingu sem krefst minni orku en hefðbundin lýsing. Við höfum eftir fremsta megni reynt að minnka notkun á plasti og pappír. Síðasta sumar tókum við sem dæmi smápokana, sem voru við afgreiðslukassa og í grænmetisdeildum, úr umferð. Við erum einnig með afpökkunarborð í okkar verslunum, þar sem fólk getur skilið eftir pappírs- og plastumbúðir sem við komum áfram í endurvinnsluna. Ég held að allir þeir sem eru að flokka sorp séu þreyttir á því hvað pappír safnast fljótt upp. Afpökkunarborðin eru hluti af lausninni á þeim vanda.“

Viðskiptavinir taka virkan þátt

„Margir spyrja hvort þessar áherslur okkar séu ekki kostnaðarsamar. Auðvitað eru þær það en ef við gerum ekkert hvar verðum við þá? Ég held að fyrirtæki sem taki ekki þátt í þessum breytingum núna muni sitja eftir eftir einhvern tíma. Ef þú hefur val þá áttu að velja lausnina sem er betri fyrir umhverfið og lýðheilsu þó að hún kosti aðeins meira. Það að taka til dæmis nammibarinn út jafngildir því að taka tekjur úr fyrirtækinu því sælgæti er á hárri framlegð. Þegar svona er gert þá þarf að finna tekjur annars staðar en ég held að reksturinn tali sínar sínu máli í þessum efnum. Það að við séum að auka söluna og yfir áætlun sýnir að þessar áherslur okkar eru að ná í gegn. Við erum samstíga okkar viðskiptavinum og á sömu vegferð og þeir. Við myndum aldrei taka ákvarðanir í andstöðu við vilja viðskiptavinanna. Slíkt myndi aldrei ganga upp.

Okkar viðskiptavinir eru að taka virkan þátt í þessu með okkur. Þeir láta okkur vita hvað við getum gert betur og við erum líka óhrædd við að spyrja þá á samfélagsmiðlum hvað við eigum að gera næst í umhverfismálum eða hvort þeir vilja sjá einhverjar tilteknar vörur. Það skiptir miklu máli að eiga þetta samtal. Afpökkunarborðið var sem dæmi hugmynd frá einum af okkar viðskiptavinum.“

Taka afstöðu með umhverfinu

Það merkilega við þetta allt saman er að Krónan er ekki með sérstaka deild sem sér um samfélagslega ábyrgð.

„Þetta er hjartans mál allra í fyrirtækinu. Það er ómetanlegt þegar þetta sprettur upp úr grasrótinni ef svo má segja — að allir séu með vitaðir um þessi mál. Við fáum oft spurningar frá starfsfólki sem er að raða vörum í hillur hvort einhver tiltekin vara þurfi að vera í öllum þessum umbúðum. Þá förum við til birgisins og spyrjum sömu spurningar og þrýstum þannig á að þeir séu líka meðvitaðir um þessi mál. Við erum alltaf að skoða hvað við getum gert betur og það er lykillinn að árangri.

Við hugsum þetta alltaf þannig að við tökum afstöðu með umhverfinu. Ef það er einhver vafi þá látum við náttúruna njóta vafans. Við erum mjög meðvituð um það hvaða vörur við tökum inn í okkar verslanir.

Ítarlegt viðtal við Grétu Maríu Grétarsdóttur er að finna í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kom út í dag.