Íþróttavöruframleiðandinn Adidas hefur tilkynnt að þeir muni hefja stærstu auglýsingaherferð fyrirtækisins hingað til á næsta ári til að berjast gegn stærsta samkeppnisaðila sínum Nike. Þessu greinir The Guardian frá.

Adidas er annar stærsti íþróttavöruframleiðandi í heimi á eftir Nike og hefur viðurkennt að þörf er á að fjárfesta meiru í markaðssetningu til að keppa við Nike. Sala Adidas hefur farið minnkandi í þróuðum mörkuðum að undanförnu.

Adidas mun verja 14% af áætluðum sölutekjum fyrirtækisins í markaðssetningu á næsta ári sem er 1% hækkun milli ára sem gæti numið 159 milljónum punda, eða sem nemur 31 milljarði íslenskra króna.

Adidas lækkaði áætlun sína um heildar sölutekjur á árinu um 13% sökum dræmrar sölu á öðrum ársfjórðungi. Ein helsta orsök dræmrar sölu var markaðurinn í Rússlandi og slæm sala á golfvörum. Hins vegar sló sala á Adidas vörum í tengslum við heimsmeistarakeppnina í fótbolta í Brasilíu sölumet fyrirtækisins á fótboltavörum. Auk þess landaði fyrirtækið nýlega tíu ára samningi við Manchester United frá og með leikárinu 2015/2016 sem talið er nema 750 milljónum punda, eða sem nemur 146 milljörðum íslenskra króna.

Hlutabréfaverð í fyrirtækinu hefur verið fallandi að undanförnu. Samkvæmt nýrri spá verður hagnaður fyrirtækisins fyrir árið 650 milljónir evra, en í byrjun árs var spáð 930 milljón evra hagnaði. Því er öruggt að Adidas þurfi á nýrri markaðsherferð að halda til að auka sölu.