*

föstudagur, 19. júlí 2019
Innlent 27. janúar 2017 11:44

Stærsta bensínstöð landsins

Costco hyggst byggja bensínstöð fyrir allt að 400 milljónir með að minnsta kosti 16 dælum. Olís og Skeljungur keppa um þjónustusamning.

Ritstjórn
european pressphoto agency

Forsvarsmenn Costco sem stefna að opnun verslunar- og vöruhúss síns í maí hefur átt í viðræðum við íslensku olíufélögin um birgðaþjónustu við bensínstöðina sem fyrirtækið hyggst reisa á lóð sinni við Kauptún í Garðabæ.

Verður bensínstöðin sú stærsta á landinu, með sextán dælum hið minnsta, en eftir viðræður þarf verslunin nú að velja milli tilboða Skeljungs og Olís í þjónustuna að því er fram kemur á mbl.is.

Ákvörðun á næstu dögum

Kemur þar fram að vænta megi ákvörðunar Costco um hvort fyrirtækið verði samið við á næstu dögum, en félagið áætlar að selja 10 milljón lítra af eldsneyti á fyrsta rekstrarári sínu hérlendis. Þær áætlanir byggðu þó reyndar á upphaflegu markmiði um að opna verslunina í marsmánuði.

Á Íslandi séu hins vegar 350 milljón lítrar af eldsneyti seldar í smásölu á ári, svo þetta magn væri um 3% af heildarmagninu.

Þó ekki sé komið í ljós við hvort olíufélagið Costco semur hefur félagið þó þegar keypt ákveðna þjónustu af Skeljungi, sem hafa nú þegar dælt eldsneyti á jarðgeyma stöðvar Costco í Kauptúni.

Var það liður í úttekt á nýju mannvirkjunum, en líklegt er talið að stofnkostnaður við nýja bensínstöð félagsins sé á bilinu 300 til 400 milljónir.

Stikkorð: Skeljungur Olís Kauptún Costco