Nýliðið ár var það stærsta í sölu bíla hér á landi frá upphafi, en í heildina voru 26.226 ökutæki nýskráð á árinu að því er Morgunblaðið greinir frá. Jón Trausti Ólafsson framkvæmdastjóri Öskju og formaður Bílgreinasambandsins segir markaðinn hafa náð ákveðnu hámarki og því geri hann ekki ráð fyrir mikilli söluaukningu á þessu ári.

Metið sem slegið var nú er frá árinu 2007, en þá var fjöldinn 25.715. Fólksbílar voru langstærsti hluti nýskráðra ökutækja, eða 21.287, en söluaukningin í þeim hluta nam 15% milli 2016 og 2017.

Þónokkur breyting hefur orðið innbyrðis á sölu bíla eftir orkugjöfum. þannig hefur sala á tengitvinnbílum, eða Plugin-hybrid, bílum tífaldast á síðustu tveimur árum, ÚR 139 árið 215 í 1.390 á síðasta ári. Sala á rafbílum jókst um 86% milli áranna 2016 og 2017 og sala á Hybrid bílum jókst um 51%.

Sala á dísil og bensínbílum jókst einnig, eða um 8-9%, en hins vegar dróst saman sala á metanbílum um 11%.

Jón Trausti segir skýringuna aukna áherslu framleiðenda á hybrid- og rafmagnsbíla. „Sú tækni virðist ætla að verða ofan á hjá bílaframleiðendum og framboðið er orðið mun meira af slíkum bílum en metan“ segir Jón Trausti sem segir uppistöðuna enn þó vera bensín- og dísilbíla.

„Þessir bílar eru stærsti hluti markaðarins, eða um 85 prósent, og þessir bílar menga miklu minna en þeir gerðu fyrir einhverjum árum síðan. Eyðsla bensín- og dísilbíla hefur meira en helmingast á áratug. Nýjustu bílarnir eru miklu hreinni en þeir voru áður og alveg ósamanburðarhæfir við gömlu bílana.“