Mestur hefur tekjuvöxturinn verið hjá stærsta fyrirtækinu KPMG eða um 36% síðustu fjögur ár, úr 3,5 milljörðum króna í 4,8 milljarða króna. Jón Sigurður Helgason, framkvæmdastjóri KPMG, segir tekjur fjögurra stóru félaganna nánast hafa staðið í stað þar til fyrir um tveimur árum síðan.

„Á meðan veltan var flöt var bara verið að selja minna umfang út af verðhækkunum sem fylgja verðlagsbreytingum og raunveltan að minnka,“ segir Jón.

Töluvert hafi verið af endurskipulagningarverkefnum eftir hrunið en í kringum árið 2012 hafi farið að hægjast um. Jón segir að helst séu það hagstæðar efnahagsaðstæður og aukin áhersla á annað en endurskoðun, til að mynda ráðgjöf og bókhaldsþjónusta, sem valdi auknum umsvifum hjá KPMG.

Velta félagsins sem hlutdeild af veltu félaganna fjögurra hefur vaxið úr 41% í 45% á síðustu þremur árum. Vöxtur ferðaþjónustunnar hafi komið KPMG til góða.

„Við höfum lagt mikla áherslu á ferðaþjónustuna og erum með stóran kúnnahóp. Það á klárlega þátt í auknu verkefnaflæði hjá okkur,“ segir Jón.

Hægasti vöxturinn hjá Deloitte

Deloitte hefur skorið sig nokkuð úr meðal stærstu endurskoðunarfyrirtækjanna hvað varðar tekjuvöxt og hagnað. Tekjur félagsins jukust um 1% milli ára en 10-12% hjá hinum félögunum. Hagnaður Deloitte dróst saman um 24% milli ára og nam 255 milljónum króna. Líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um nýverið hefur fjöldi meðeigenda hætt störfum að undanförnu eftir átök í eigendahópnum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .