Ferðaþjónustan varð í fyrsta skipti á síðasta ári sú atvinnugrein sem skapaði mestar gjaldeyristekjur hérlendis, 275 milljarða króna, og tók þar með fram úr sjávarútvegi. Ekki er útlit fyrir neitt annað en að ferðaþjónustan haldi fyrsta sætinu því það er nánast sama á hvaða hluta greinarinnar horft er, vöxtur milli ára er yfirleitt mældur í tugum prósenta.

Það sem af er þessu ári hafa 39 nýjar ferðaskrifstofur verið stofnaðar og í dag eru því 220 ferðaskrifstofur starfandi. Aukningin milli ára nemur 22%. Ferðaskipuleggjendum hefur fjölgað um 103 það sem af er árinu og eru því 770 ferðaskipuleggjendur með starfsleyfi í dag. Aukningin þarna nemur 15%. Í grófum dráttum er munurinn á ferðaskipuleggjendum og ferðaskrifstofum sá að ferðaskipuleggjendur hafa einungis leyfi til að bjóða upp á dagsferðir.

Í úttekt Viðskiptablaðsins um bílaleigur, sem birt var í apríl, kom fram að 140 bílaleigur væru með starfsleyfi og að þeim hefði fjölgað um 120% á síðustu sex árum. Í úttekt blaðsins um hótelmarkaðinn, frá því í febrúar, kom fram að á næstu þremur árum til fjórum árum myndi framboð á hótelherbergjum í Reykjavík aukast um 50%.

Milljón á næsta ári

Greiningardeild Arion banka kynnti í síðustu viku nýja spá um fjölda ferðamanna á næstu árum og þróun á hótelmarkaðnum. Samkvæmt spánni er gert ráð fyrir að 960 þúsund ferðamenn komi til landsins í gegnum Leifsstöð á þessu ári.

Í fyrra komu 781 þúsund ferðamenn til landsins í gegnum flugstöðina og gangi spá greiningardeildarinnar eftir nemur aukningin milli ára 23%. Þess má geta að á fyrstu átta mánuðum þessa árs hafa nú þegar um 700 þúsund ferðamenn komið hingað í gegnum Leifsstöð.

Greiningardeildin spáir því að á næsta ári verði milljónamúrinn rofinn og ríflega það. Hún spáir því að 1,1 milljón ferðamanna sæki landið heim á næsta ári, ríflega 1,2 milljónir árið 2016 og 1,3 milljónir árið 2017.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .