Bandaríska fyrirtækið Silicor Materials hefur tilkynnt formlega að það hyggist byggja 19 þúsund tonna sólarkísilverksmiðju á Grundartanga. Þetta kemur fram í tilkynningu sem fyrirtækið hefur sent frá sér. Verkefnið er risastórt en heildarfjárfestingin er metin á 77 milljarða króna og mun Arion banki sjá um fjármögnunina. Þetta er langstærsta framkvæmd sem farið hefur verið í hérlendis í mörg ár.

Um 400 manns munu starfa við verksmiðjuna þegar hún verður komin í fullan rekstur en auk þess munu um 300 manns starfa við byggingu hennar. Stefnt er að því að framkvæmdir hefjist í haust og að starfsemin hefjist árið 2017. Theresa Jester, forstjóri Silicor Materials, segir í tilkynningunni að meginástæðan fyrir valinu sé að hér séu allir innviðir í lagi, sér í lagi séu samgöngur góðar.

Helsta ástæðan sé samt sú að hér sé hægt að fá ódýra endurnýjanlega orku sem þýði að verksmiðjan verði sú eina í heiminum sem muni framleiða fullkomlega „grænan“ sólarkísil. Þó að verksmiðjan þurfi mikið rafmagn er hún umhverfisvæn og þarf ekki að gangast undir mat á umhverfisáhrifum, að mati Umhverfisstofnunar. Silicor Materials er ekki enn búið að gera ívilnunarsamning við stjórnvöld en drög að honum liggja fyrir. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er búist við að því að samningurinn verði undirritaður seinna í sumar. Ívilnunarsamningar kveða á um að hið opinbera, ríki og sveitarfélög, veiti afslátt af ýmsumsköttum og gjöldum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .