Kínverska fjártæknifyrirtækið Ant Group hyggst sækja allt að 30 milljarða dollara í frumútboði í haust, sem gæti orðið það stærsta í sögunni. Það færi þá fram úr Sádi-Arabíska olíufyrirtækinu Aramco sem safnaði 29,4 milljörðum dollara á síðasta ári.

Ant mun selja 10%-15% hlut í útboðinu sem mun fara fram bæði í Hong Kong og Sjanghæ, samkvæmt heimildum Financial Times . Jafnframt er talið að fyrirtækið verði metið á bilinu 200-300 milljarða dollara við útboðið. Stjórnendur Ant munu hitta fjárfesta á næstu dögum til að ákveða nákvæmt verð og stærð útboðsins.

Hið háa verðmat má rekja til vinsælda Alipay sem er notað af fleiri en 700 milljónum manna og 80 milljónum fyrirtækja fyrir snertilausar greiðslur, fjárfestingar í verðbréfasjóðum, tryggingakaup og til að greiða reikninga. Alibaba, sem á 33% hlut í Ant, hefur verið að safna saman öllum þjónustum sínum í Alipay „ofurapp“.

Bandarísku bankarnir Citigroup, JPMorgan og Morgan Stanley munu fá samtals 300 milljónir dollara í þóknanatekjur af tvískráningunni, sem mun líklega fara fram í október.

Tekjur Ant námu 120,6 milljörðum yuan, eða um 24.188 milljörðum króna, á síðasta ári og jukust um 41% frá árinu 2018. Félagið hagnaðist um 3,5 milljarða dollara á fyrri helmingi ársins .