Bandaríska lögmannsstofan Dewey & LeBoeuf hefur óskað eftir gjaldþrotaskiptum. Aldrei áður hefur svo stór lögmannsstofa orðið gjaldþrota í Bandaríkjunum. Stefnt er að því að brjóta upp reksturinn eftir að eigendum mistókst að finna fyrirtæki til að sameinast. Greint er frá málinu á viðskiptavef BBC.

Fyrr á þessu ári kláraðist allt lausafé lögmannsstofunnar. Í kjölfarið hættu flestir eigenda stofunnar. Þegar stofan var sem stærst störfuðu rúmlega 1.300 manns hjá henni í 12 löndum. Þeir eru nú um 150 talsins.

Talið er að ákvörðun stjórnenda um að lofa um hundrað eigendum milljónir dollara trygginga hafi orðið stofunni að falli. Ákvörðunin leiddi til þess að ómögulegt var fyrir fyrirtæki að takast á við minnkandi tekjur í efnahagskreppunni.