Danska orku­fyrir­tækið Ørsted hefur til­kynnt um allt að 60 milljarða danskra króna, 1.150 milljarða ís­lenskra króna, hluta­fjáraukningu, þá stærstu í sögu Dan­merkur, til að styrkja efna­hag sinn og verja reksturinn.

Að­gerðin kemur á viðkvæmum tíma, bæði fyrir fyrir­tækið og danska ríkið sem á 50,1% hlut í félaginu.

Hlutafjáraukningin er í beinni and­stöðu við fyrri yfir­lýsingar Rasmus Err­boe, for­stjóra Ørsted um að hluta­hafar þyrftu ekki að bera kostnað af endur­skipu­lagningu fyrir­tækisins.

Ástæðan sé sú að stjórn Donalds Trump Bandaríkja­for­seta hafi skapað svo mikla óvissu að félagið geti ekki lengur selt stór vindorku­verk­efni til að fjár­magna rekstur og ný­fram­kvæmdir.

Donald Trump for­seti Bandaríkjanna hét því í kosninga­baráttu sinni að stöðva vindorku­verk­efni úti á hafi „strax á fyrsta degi“ í em­bætti.

Á vor­mánuðum stöðvaði Trump stórt vindorku­verk­efni í New York sem var í höndum helsta keppi­nautar Ørsted, Equ­in­or.

Í október 2024 keypti norska orku­fyrir­tækið Equ­in­or 9,8% hlut í Ørsted en eignar­hluti 10%. Félögin tvö eru keppi­nautur í fjölmörgum vindorku­verk­efnum.

Að­gerðin, sem hefur verið sögð bæði for­dæma­laus og ólög­leg, rýrði trú fjár­festa á verk­efnum í greininni og hefur gert áhættu­dreifingu nær ómögu­lega.

Vextir og minnkandi áhugi á grænni orku

Kreppa Ørsted á sér þó rætur að rekja nokkur ár aftur í tímann. Hækkun vaxta þrýsti á arð­semi risa­vaxinna vindorku­verk­efna sem voru á sínum tíma fjár­mögnuð í lág­vaxta­um­hverfi.

Sam­hliða dró úr fjár­festinga­vilja í orku­skiptum. Þetta varð til þess að fyrr­verandi for­stjóri, Mads Nipper, vék úr starfi og Err­boe tók við í janúar 2025 með lof­orð um að selja eignir til að forða hluta­fjáraukningu.

Hluta­fjáraukningin krefst þess að danska ríkið, stærsti eig­andi Ørsted, leggi fram um 30 milljarða danskra króna, um 575 milljarða ís­lenskra króna.

Þetta kemur á sama tíma og þörf er á stór­felldri upp­byggingu í varnar­málum og öðrum út­gjöldum ríkisins, sem mun lík­lega kynda undir pólitíska um­ræðu um eignar­hald ríkisins í fyrir­tækinu.

Sam­kvæmt Børsen standa Err­boe og Lene Skole, stjórnar­for­maður Ørsted, frammi fyrir gríðar­legum þrýstingi vegna þess að þessi að­gerð dugi til að tryggja stöðug­leika næstu ár.

Jafn­vel þótt fjár­magnið náist inn er ljóst að það mun taka langan tíma að endur­heimta traust markaðarins og félagið hefur lítið svigrúm fyrir mistök.