Danska orkufyrirtækið Ørsted hefur tilkynnt um allt að 60 milljarða danskra króna, 1.150 milljarða íslenskra króna, hlutafjáraukningu, þá stærstu í sögu Danmerkur, til að styrkja efnahag sinn og verja reksturinn.
Aðgerðin kemur á viðkvæmum tíma, bæði fyrir fyrirtækið og danska ríkið sem á 50,1% hlut í félaginu.
Hlutafjáraukningin er í beinni andstöðu við fyrri yfirlýsingar Rasmus Errboe, forstjóra Ørsted um að hlutahafar þyrftu ekki að bera kostnað af endurskipulagningu fyrirtækisins.
Ástæðan sé sú að stjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta hafi skapað svo mikla óvissu að félagið geti ekki lengur selt stór vindorkuverkefni til að fjármagna rekstur og nýframkvæmdir.
Donald Trump forseti Bandaríkjanna hét því í kosningabaráttu sinni að stöðva vindorkuverkefni úti á hafi „strax á fyrsta degi“ í embætti.
Á vormánuðum stöðvaði Trump stórt vindorkuverkefni í New York sem var í höndum helsta keppinautar Ørsted, Equinor.
Í október 2024 keypti norska orkufyrirtækið Equinor 9,8% hlut í Ørsted en eignarhluti 10%. Félögin tvö eru keppinautur í fjölmörgum vindorkuverkefnum.
Aðgerðin, sem hefur verið sögð bæði fordæmalaus og ólögleg, rýrði trú fjárfesta á verkefnum í greininni og hefur gert áhættudreifingu nær ómögulega.
Vextir og minnkandi áhugi á grænni orku
Kreppa Ørsted á sér þó rætur að rekja nokkur ár aftur í tímann. Hækkun vaxta þrýsti á arðsemi risavaxinna vindorkuverkefna sem voru á sínum tíma fjármögnuð í lágvaxtaumhverfi.
Samhliða dró úr fjárfestingavilja í orkuskiptum. Þetta varð til þess að fyrrverandi forstjóri, Mads Nipper, vék úr starfi og Errboe tók við í janúar 2025 með loforð um að selja eignir til að forða hlutafjáraukningu.
Hlutafjáraukningin krefst þess að danska ríkið, stærsti eigandi Ørsted, leggi fram um 30 milljarða danskra króna, um 575 milljarða íslenskra króna.
Þetta kemur á sama tíma og þörf er á stórfelldri uppbyggingu í varnarmálum og öðrum útgjöldum ríkisins, sem mun líklega kynda undir pólitíska umræðu um eignarhald ríkisins í fyrirtækinu.
Samkvæmt Børsen standa Errboe og Lene Skole, stjórnarformaður Ørsted, frammi fyrir gríðarlegum þrýstingi vegna þess að þessi aðgerð dugi til að tryggja stöðugleika næstu ár.
Jafnvel þótt fjármagnið náist inn er ljóst að það mun taka langan tíma að endurheimta traust markaðarins og félagið hefur lítið svigrúm fyrir mistök.