Íslandsbanki og Höfðahótel ehf. hafa undirritað samning um fjármögnun á byggingu stærsta hótels landsins sem mun rísa á Höfðatorgi. Í tilkynningu frá bankanum kemur fram að Íslandshótel muni annast rekstur hótelsins en fyrirtækið rekur í dag Fosshótel, Grand Hótel, Hótel Reykjavík og Hótel Reykjavík Centrum.

Hótelið verður um 17.000 fermetrar, á 16 hæðum og með yfir 340 herbergi. Þá verða 10.000 fermetrar byggðir við þá bílageymslu sem er nú þegar við Höfðatorg og munu við það bætast tæplega 300 bílastæði við þau sem fyrir eru. Eykt sér um framkvæmdirnar en undirbúningsvinna við þær er þegar hafin. Áætluð verklok eru í júní 2015.

Hótelið verður þriðja byggingin sem rís á Höfðatorgsreitnum en fyrirhugað er að þar rísi í allt 6 byggingar. Félagið HTO ehf, sem er í meirihlutaeigu Íslandsbanka, á og rekur þær byggingar sem nú eru við Höfðatorg. Félagið er í söluferli.