Fosshótel Reykjavík við Höfðatorg opnar í júni. Framkvæmdir við það hófust vorið 2013 og það er Eykt sem byggir. Ef áætlanir standast mun bygging hótelsins því taka um tvö ár.

Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela, segir að í nýja hótelinu verði 320 herbergi, þar af verði sjö svítur á efstu hæðinni. Hann segir að stærsta svítan verði 65 fermetrar. Áætlanir gera ráð fyrir að heildarkostnaður við byggingu hótelsins verði á bilinu 7 til 8 milljarðar króna.

„Þetta verður stærsta hótelið í Reykjavík hvað herbergjafjölda varðar. Næststærsta hótelið er Grand Hótel Reykjavík með 311 herbergi,“ segir Davíð Torfi en Íslandshótel reka líka Grand Hótel.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .