Von er á tölvuteiknimyndinni Þór – Í heljargreipum, sem íslenska fyrirtækið CAOZ framleiðir, í kvikmyndahús á þessu ári. Byrjað var að vinna með hugmyndina fyrir sjö árum og segir Hilmar Sigurðsson, einn stofnenda og framkvæmdastjóri CAOZ, að um sé að ræða stærsta kvikmyndaverkefni sem ráðist hefur verið í hér á landi. Alls nemur kostnaður við myndina 1,4 milljörðum króna. Framleiðsla myndarinnar er nú á lokasprettinum.

Risaverkefni

Hilmar segir ekki hlaupið að því að ráðast í svo stórt verkefni. „Þór er risaverkefni og tók okkur þrjú ár að fjármagna. Kostnaðurinn er 1,4 milljarðar króna og er líklega hátt í tífaldur framleiðslukostnaður miðað við hefðbundnar kvikmyndir. Hér heima eru um hundrað ársverk við vinnslu myndarinnar,“ segir Hilmar en auk myndvers í Reykjavík er unnið að myndinni í Þýskalandi og á Írlandi. Aldrei áður hefur verið ráðist í viðlíka verkefni hér á landi.

Vel hefur verið tekið í hina íslensku tölvuteiknimynd og að fjármögnun standa 24 aðilar. Meðal þeirra eru sjö kvikmyndasjóðir frá þremur löndum auk Evrópusjóðsins. Einkaaðilar fjármagna um þriðjung framleiðslunnar. Nú þegar hefur Þór verið seldur til rúmlega fjörutíu landa. Vonir standa til að þau verði alls um hundrað þegar myndin verður frumsýnd hér heima næsta haust.

Örar breytingar

Þegar byrjað var að vinna myndina stóð ekki til að gera hana í þrívídd. Á síðustu tveimur árum hafa breytingar hins vegar verið hraðar og þrívíddartæknin ruðst inn í kvikmyndaheiminn á ógnarhraða. Hilmar segir að nú sé ár frá því að krafa var gerð um að Þór yrði í þrívídd. „Við einfaldlega drifum í því. Það þurfti að snúa öllu á haus, afla um 1,2 milljóna evra (um 200 milljóna króna) og breyta framleiðslulínum.“

Að sögn Hilmars hefur kvikmyndaiðnaðurinn ekki aðeins breyst með tilkomu nýrrar framleiðslutækni líkt og með þrívíddinni. „Í dag er erfiðara að fá peninginn út úr verkefninu heldur en var áður. Með tilkomu stafræna formsins hafa dreifileiðir kvikmynda breyst. Breytingunni hefur fylgt ólöglegt niðurhal og skjótari dreifileiðir þýðir styttri líftími verkefna. Það styttir tímann sem tekjur fást af kvikmynd,“ segir Hilmar. Stafræn tækni hefur þó einnig haft jákvæð áhrif fyrir íslenskan kvikmyndaiðnað og gerir íslenskum framleiðendum kleift að fullvinna myndir hér heima. Áður fór öll eftirvinnsla fram erlendis og gat numið allt að 20% af heildarkostnaði.