Með sameiningu Almenna leigufélagsins og leigufélagsins Kletts ehf sem var í eigu íbúðarlánasjóðs verður til stærsta leigufélag á Íslandi með 1000 íbúðir um allt land. Hyggjast eigendur hins sameinaða félags skrá það í kauphöll innan tveggja ára.

„Með sameiningu Almenna leigufélagsins og Kletts verður til stærsta sérhæfða leigufélagið á Íslandi. Það tryggir betur framboð á leiguhúsnæði, dregur úr þrýstingi á hækkun leiguverðs og veitir leigjendum raunhæfan og hagkvæman valkost til að leigja íbúðarhúsnæði til langs tíma. Á sama tíma verður til spennandi fjárfestingarkostur fyrir almenna og sérhæfða fjárfesta sem vilja kaupa hlut í skráðu fasteignafélagi.“ er haft eftir Maríu Björk Einarsdóttur framkvæmdastjóra Almenna leigufélagsins í fréttatilkynningu frá félaginu.

Leigufélagið Klettur hefur yfir að ráða 450 íbúðum en fyrir var Almenna leigufélagið með 550 íbúðir. Um 75% íbúða hins sameinaða félags eru á höfuðborgarsvæðinu en restin þess utan.