Von var á um 3.000 ráðstefnugestum frá öllum heimsálfum á World Geothermal Congress 2020 ( WGC 2020), jarðhitaráðstefnu Alþjóða jarðhitasambandsins, sem átti að fara fram í Hörpu dagana 27. apríl til 1. maí. Var þetta stærsta ráðstefnan sem fara átti fram hér á landi á þessu ári en nú hefur undirbúningsnefnd hennar ákveðið að fresta henni þar til 21. – 26. maí á næsta ári.

„Í ljósi þeirra fordæmalausu aðstæðna sem hafa skapast vegna útbreiðslu kórónuveirunnar hefur sú ákvörðun verið tekin að fresta WGC 2020 fram til maí 2021,“ er haft eftir Bjarna Pálssyni formanni undirbúningsnefndar „Þetta var þungbær ákvörðun en heilsa og ítrasta öryggi allra viðeigandi er í forgangi. Með frestun fram á næsta ár tryggjum við að öll sú vinna sem hefur farið í að skipuleggja þessa uppskeruhátíð jarðhitaiðnaðarins fari ekki forgörðum.“

Jarðhitaráðstefnan er haldin á fimm ára fresti en hefur aldrei farið fram hér á landi. Eins og áður sagði var búist við yfir 3.000 ráðstefnugestum frá yfir 100 löndum í öllum heimsálfum. Megintilgangur jarðhitaráðstefnunnar er að sameina leiðtoga og hagsmunaaðila í orkumálum frá löndum sem bæði hafa náð eða eru að vinna að nýtingu jarðvarma auk stjórnmálamanna og fulltrúa frá alþjóðlegum fjármálafyrirtækjum. Alþjóða jarðhitasambandið var stofnað árið 1988.