Tólf Mitsubishi i-MiEV rafbílar voru afhentir kaupendum klukkan fjögur í dag í Heklu í dag. Kaupendur eiga það flestir sameiginlegt að vera íslensk fyrirtæki á sviði orkumála. Friðbert Friðbertsson forstjóri HEKLU afhenti bílana og var Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og  viðskiptaráðherra viðstödd afhendinguna.

Í tilkynningu frá Heklu segir að þetta sé stærsta rafbílaafhending sem fram hefur farið á Íslandi. Kaupendur bílanna eru Orkuveita Reykjavíkur, Landsvirkjun, Eignarsjóður Reykjavíkur,  Landsnet, Skeljungur, HS Veitur, Norðurorka og Bílastæðasjóður.

„Þetta er merkilegur dagur. Aldrei fyrr hafa svo margir rafbílar verið afhentir á einu bretti á Íslandi. Þetta kann að vera eitt af stóru skrefunum í átt að umhverfisvænna samfélagi á Íslandi. Hagstæðir samningar náðust við Mitsubishi um verð á i-MiEV rafbílum og það verð endurspeglar þær væntingar sem HEKLA og Mitsubishi hafa til Íslands sem markaðar fyrir rafbíla,“ segir Friðbert Friðbertsson, forstjóri HEKLU hf í tilkynningu.