Gangi allar áætlanir eftir mun 4000 fermetra reiðhöll rísa á svæði Andvara í Kópavogi á næsta ári. Þetta verður stærsta reiðhöll landsins með aðstöðu fyrir 800 áhorfendum í stúku, félagsheimili og 250 fermetra innistöðu fyrir hesta og knapa. Byggingarkostnaður reiðhallarinnar er áætlaður um 650 milljónir króna. Það er Hestamannafélagið á Kjóavöllum sem stendur að byggingunni. Félagið samanstendur af Hestamannafélögunum Gusti í Kópavogi og Andvara.

Hestamannafélagið er næst stærsta hestamannafélag landsins með um eitt þúsund félagsmenn.

Fram kemur í umfjöllun Hestablaðsins að á stofnfundi Hestamannafélagsins á Kjóavöllum hafi verið samþykkt að ráðast í bygginguna sem muni rísa á næsta ári. Þá segir Hestablaðið að hestamannafélagið eigi nánast fyrir framkvæmdum. Þar af komi 500 milljónir frá Kópavogsbæ, sem greiði fyrir eignir Gusts í Glaðheimum auk þess sem Garðabær leggi til 100 milljónir sem greiðast út fyrir árið 2016. Til viðbótar leggur Gustur til 40 milljónir króna í peningum. Ofan á það á sameinað félag talsverðar eignir.

Á meðal eignanna eru félagsheimili og reiðhöll Andvara, sem byggð var fyrir rúmum áratug. Viðraður hefur verið möguleikinn á að selja eignirnar.

Hér má sjá teikningu af reiðhöllinni á Kjóavöllum.

Ný reiðhöll rís á Kjóavöllum
Ný reiðhöll rís á Kjóavöllum
© Jens Einarsson (VB MYND/Jens)