Flugvélaframleiðadinn Boeing sankaði að sér 25 milljörðum dollara, andvirði ríflega 3,6 billjón íslenskra króna, í skuldabréfaútboði í gær. Um er að ræða sjötta stærsta útboð sögunnar og það stærsta á þessu ári. Til að setja töluna í eitthvað samhengi má nefna að verg landsframleiðsla Íslands nam um 2,8 billjónum árið 2018. Reuters segir frá.

Boeing hefur verið í basli í rúmt ár eftir að 737Max vélar félagsins voru kyrrsettar í kjölfar tveggja mannskæðra flugslysa sem rekja mátti til galla í vélunum. Stöðvun ferðalaga vegna veirufaraldursins hefur síðan komið sér afar illa, eðli málsins samkvæmt, fyrir fluggeirann.

Sagt var frá útboðinu í upphafi viku og áætlaði Boeing í upphafi að félagið þyrfti um tíu til fimmtán milljarða dollara. Hærri fjárhæð var hins vegar í boði þegar upp var staðið sökum mikils áhuga fjárfesta á þátttöku í útboðinu.

„Eftir þessi viðbrögð, og að því gefnu að allt gangi í gegn 4. maí, hefur félagið ekki í hyggju að sækja sér meira fé í gegnum markaði eða aðstoð í ríkissjóð,“ segir í tilkynningu frá Boeing.