Stærsta truffla heims verður boðin upp hjá uppboðshúsinu Sotheby´s á morgun. Trufflan er hvít og fannst í Umbrian-héraði á Ítalíu í síðustu viku.

Hún er 1,89 kíló, sem gerir hana næstum tvöfalt stærri en stærstu truffluna sem fundist hefur hingað til. Sú var seld fyrir 417 þúsund bandaríkjadali árið 2010. Búist er við því að fyrsta boð í þessa trufflu verði í kringum 50 þúsund dali.

Það var einn stærsta trufflufyrirtæki heims sem fann þessa einstöku trufflu, Sabatino Truffles. Hvítar trufflur eru eitt sjaldgæfasta og eftirsóttasta innihaldsefni í mat í heiminum. Þær finnast aðeins með því að nota sérþjálfaða hunda á ákveðnum svæðum á Ítalíu í október, nóvember og desember. Hins vegar er stærðin ekki ávísun á gæði heldur eru stórar trufflur iðulega notaðar í auglýsingaskyni eða sem skraut. Ágóðinn af sölu þessarar trufflu rennur til góðgerðamála.

Fleiri trufflur verða til sölu á uppboðinu, en upplýsingar um það má finna hér .