Vogabyggð er eitt af helstu þéttingarsvæðunum í Reykjavík um þessar mundir, en svæðið er innst í Elliðavogi austan Sæbrautar og nær frá Knarrarvogi í suðri að Kleppsmýrarvegi í norðri. Í síðasta mánuði voru undirritaðir samningar milli Reykjavíkurborgar, Landsbankans, Hamla og Gámakó um uppbyggingu á hluta svæðisins. Stefnt er að því að deiliskipulag fari í auglýsingu á næstunni.

Hluti húsanna á svæðinu verður rifinn, en stór hluti fær að halda sér í núverandi mynd þó ætlunin sé að nýting þeirra breytist með tímanum. Sigríður Magnúsdóttir,arkitekt FAÍ hjá Teiknistofunni Tröð og einn af skipulagshöfundum, segir að um leið og deiliskipulagið verður samþykkt geti eigendur þónokkurra húsa farið af stað með breytingar á þeim. Þeir sem ekki eru áhugasamir um breytingar þurfi þó ekki að fara í breytingar strax.

Borgarumhverfi nærri náttúru

Sigríður segir að þetta eðli verkefnisins – að verið sé að semja við lóðarhafa samhliða því sem deiluskipulagið er unnið – sé sérstakt. Ekki séu fordæmi fyrir jafn mikilli breytingu svæðis úr iðnaðar- og athafnastarfsemi í þriflegri atvinnustarfsemi og íbúðabyggð.

Segja megi að uppbygging við Skúlagötu upp úr 1980 hafi verið svipuð, en þar var þó beitt annarri aðferðafræði. „Við göngum lengra en var gert þarna á Skúlagötunni með það að það er verið að búa til alveg nýtt gatnakerfi inni í hverfið,“ segir Sigríður.

Nánar er fjallað um málið í Fasteignum, fylgiblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .